140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi eðlismun á tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu og Vaðlaheiðargöngum þá eru þetta hvort tveggja verkefni sem hið opinbera hefur tekið að sér að fjármagna. Nú erum við að veita heimild til verkefnisins Hörpu sem ríki og borg sitja með í fanginu nú þegar. Verkefnið er orðið að staðreynd og var tekin ákvörðun um það fyrir alllöngu síðan. Með ákvörðuninni um heimild til Vaðlaheiðarganga erum við að ýta úr vör nýju verkefni. Við erum ekki að fara yfir það núna hvort ríkið eigi að koma að fjármögnun Hörpu. Það hefur þegar verið tekin ákvörðun um það. Varðandi Vaðlaheiðargöng þá eru þau nýtt verkefni til að efla atvinnustig í landinu og fjárlaganefnd þarf að taka ákvörðun um hvort verkefnið sé raunhæft.