140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:09]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek ekki alveg undir þessi orð. Ég tel að Vaðlaheiðargöng hafi verið sérstök framkvæmd og hún hafi einfaldlega verið sett til hliðar. Hún er hvorki fyrir framan né aftan önnur verkefni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í orð hennar um að bankar og lífeyrissjóðir hafi svikið samkomulag við ríkið. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um lokafjárlögin segir, með leyfi forseta:

„Hér er um að ræða fjármögnun á sérstakri aðgerð vegna skuldavanda heimila samkvæmt samkomulagi stjórnvalda við fjármálastofnanir frá desember 2010. Engar tekjur voru aftur á móti bókfærðar hjá ríkissjóði. sem fjárframlag vegna þessa samkomulags á árinu 2011. Hins vegar var lagður sérstakur viðbótarskattur á fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 155/2010. Þessi skattheimta náði ekki til lífeyrissjóða.“

Nú liggur fyrir að verið er að færa þetta sem einhvers konar tekjur jafnvel þó að ekki sé búið að ná samkomulagi við lífeyrissjóði og því spyr ég hv. þingmann: Er það ekki rétt samkvæmt ríkisendurskoðanda að það eigi ekki að bókfæra þetta? Getur verið að það þurfi einfaldlega að setja þennan viðbótarskatt (Forseti hringir.) á lífeyrissjóðina til að þessi áætlun nái fram að ganga líkt og var gert með bankana?