140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru mikil vonbrigði að fjármálastofnanir og lífeyrissjóðir hafi ekki staðið við gert samkomulag. Vegna fjárlaga ársins 2012 þurfum við að fara mjög rækilega yfir þetta atriði, enda er þetta stórt hagsmunamál fyrir íslensk heimili og mjög óeðlilegt að þessar stofnanir og fyrirtæki axli ekki sína ábyrgð í þessu máli.

Varðandi meðferð þessara fyrirhuguðu greiðslna í bókhaldi ríkissjóðs þá las ég líka gagnrýni Ríkisendurskoðunar og sat fund með þeim, en ég tel þetta vera hluta af þeirri vinnu sem við erum að fara í í fjárlaganefnd að skoða það rækilega út frá vilja fjárlaganefndar hvernig við viljum að svona málum sé komið fyrir í ríkisbókhaldi.