140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:53]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Já, ég tel það maklegt vegna þess að niðurstaðan er önnur en kynnt var og að var stefnt. Ég veit ekki hvernig staðið var að þeim ákvörðunum sem lúta að yfirtöku eða kaupum Landsbankans á Sparisjóði Keflavíkur, ég veit það eitt að skoðanir um það voru mjög skiptar í þjóðfélaginu öllu og innan beggja stjórnarflokkanna. Það er eitthvert matsatriði sem kemur fram í öllum þeim aðdraganda og síðan liggur fyrir að það á eftir að semja um ákveðna hluti.

Hv. þingmaður nefndi tryggingu innstæðna. Það er alveg rétt að ríkisstjórnir hafa sennilega í tví- eða þrígang gefið slíka yfirlýsingu, Alþingi hefur aldrei staðfest slíkt. Hversu lengi telur hv. þingmaður að slík yfirlýsing eigi að standa, þ.e. að skattgreiðendur eigi að ábyrgjast sparifé allra annarra? Á það að vera um aldur og ævi?

Burt séð frá því er afdráttarlaust í mínum huga að áætlun fjárlaga á að standa og hún á að gilda og ríkisstjórn Íslands hefur alla forgöngu um að sú áætlun gangi eftir. Henni er falið það hlutverk. Hún er borin uppi af meiri hluta Alþingis og treyst fyrir því verki. Útkoman er allt önnur en að var stefnt og það er ástæðulaust að draga fjöður yfir það því að þar birtist sá vandi sem við þurfum að glíma við. Við þurfum ekki að glíma við að ná niður 30 eða 40 milljarða kr. halla, við munum þurfa að glíma við áhrif af hallarekstri upp á 55–60 milljarða kr. að lágmarki og þá eigum við að (Forseti hringir.) ræða hlutina út frá því.