140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvö atriði sem ég vildi gjarnan spyrja hv. þm. Kristján Þór Júlíusson um, sem hélt hér ágæta ræðu. Hann kom víða við. Annað er varðandi Héðinsfjarðargöng sem fóru 2,3 milljarða umfram fjárhagsáætlun. Hvar er það eiginlega bókað og hvernig eru svoleiðis upphæðir greiddar sem vantar inn í fjárlögin og væntanlega fjáraukalögin líka? Í stjórnarskránni stendur að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Hvað gerist þegar menn greiða það út?

Síðan er það varðandi Sparisjóð Keflavíkur, herra forseti. Vitað var 22. apríl 2010 að hann væri í miklum vanda. Síðan kom í ljós í febrúar 2011 að bankinn var kominn með stórlega neikvætt eigið fé þannig að sú staða liggur alveg fyrir og var á vakt hæstv. fjármálaráðherra.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hefur fjárlaganefnd fengið upplýsingar um það hvers vegna ekki var brugðist við strax þegar sú staða lá fyrir? Hún lá fyrir í marga mánuði, þ.e. að Sparisjóður Keflavíkur gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar, og líklega hefur vandinn stóraukist á þeim tíma sem það gerðist og þeir sem um það véluðu hljóta að hafa vitað það.

Ég spyr hv. þingmann: Komu einhverjar upplýsingar fram í hv. fjárlaganefnd um það hvað gerðist á þessum tíma, frá því 22. apríl 2010 til febrúar 2011, þegar eigið fé var komið niður í mínus 11,2 milljarða, sem er ekki lítil tala?