140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[13:01]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal spyr fjárlaganefndarmenn út í ýmis atriði gerir hann engan greinarmun á stjórnarmeirihluta eða stjórnarandstöðu og það er vel, ég er mjög ánægður með það, en aðgengi stjórnarandstöðunnar að upplýsingum er miklu minna en stjórnarmeirihluta, það er sá veruleiki sem við blasir.

Svo ég svari þessu beint þekki ég ekki þetta mál um uppgjörið á Héðinsfjarðargöngunum til að geta svarað því með fullri vissu og vildi fá tækifæri til að afla mér frekari upplýsinga. Ég ætla að þá liggi fyrir einhverjar heimildir til uppgjörs og vona svo sannarlega að svo sé.

Varðandi Sparisjóð Keflavíkur er eina umfjöllunin sem fjárlaganefnd hefur fengið í hendur um það mál sú greinargerð sem fylgdi fjáraukalagafrumvarpi því sem hæstv. fjármálaráðherra lagði hér fram fyrir réttum mánuði. Þar er allnokkur umfjöllun um Sparisjóð Keflavíkur, Landsbankann og þá stöðu sem þar er uppi. Af henni er ekki hægt að draga neinar þær ályktanir sem gefa svar við þeim spurningum sem hv. þm. Pétur Blöndal dró hér upp og kallaði eftir. Fjárlaganefnd hefur enn ekki farið yfir þetta mál enda var sá tími sem gefinn var til að fjalla um fjáraukalagafrumvarpið sáralítill og alls ekki nægur til að vanda til þeirrar skoðunar sem þyrfti á þeim tillögum sem komu frá ríkisstjórninni við 1. umr. né, og allra síst, við síðari umræður. Það eina sem við fengum þar í hendur var minnisblað frá fjármálaráðuneytinu um samskipti Sparisjóðs Keflavíkur og Landsbankans.