140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[13:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég á ekki sæti í hv. fjárlaganefnd þannig að ég þarf að reiða mig á upplýsingar frá nefndarmönnum. Ég komst ekki í andsvar við hv. formann nefndarinnar vegna þess að fjórir skráðu sig til andsvara á undan mér.

Það sem ég hef sérstakan áhuga á eru heimildir samkvæmt 4. gr. í fjáraukalögunum sem eru án upphæða. Þar bara stendur að það eigi að ganga frá uppgjöri og greiðslu, algjörlega án upphæða. Ég hef mikinn áhuga á að vita hvernig það rímar saman við stjórnarskrána þar sem segir að ekki megi greiða neitt út nema það standi í fjárlögum og fjáraukalögum. Getur verið að menn túlki þessar heimildir galopnar, að það megi borga út 100 milljarða eða 200 milljarða eða hvað sem er á grundvelli þessarar heimildar? Þarf ekki að standa einhvers staðar upphæð sem menn borga út þegar þeir skrifa tékka?

Spurningin er: Er búið að skrifa einhverja tékka? Hefur hv. fjárlaganefnd frétt eitthvað af því að búið sé að skrifa einhverja tékka til að greiða fyrir Sparisjóð Keflavíkur? Vandi hans var mjög mikill, það vantaði 11,2 milljarða í febrúar, það er nærri komið heilt ár síðan. Spurningin er: Eru þessir 11,2 miljarðar einhvern veginn svífandi eða er búið að greiða þá? Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann hvort þessar upplýsingar hefðu komið fram í hv. fjárlaganefnd en svo áttaði ég mig á því að það er náttúrlega alveg gífurlegur hraði á öllu í þessari vinnslu og Alþingi á náttúrlega ekki að láta bjóða sér svoleiðis.