140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[13:05]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég deili áhyggjum með hv. þingmanni af þessum heimildarákvæðum. Ég verð að segja alveg eins og er að heimildarákvæðin, eins og þau eru sett fram og eins og þau hafa verið nýtt, eru galopin heimild fyrir fjármálaráðherra til að ráðstafa fé. Eina talan sem fjárlaganefnd hefur á blaði er útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum undir fjármálaráðuneytinu í frumvarpi til fjárlaga. Þar stendur núna, ef ég man rétt, 350 millj. kr. (Gripið fram í.) í A-hlutanum. Í heimildargreinum eru heimildir, m.a. það dæmi sem við erum að nefna hér, uppgjör til Sparisjóðs Keflavíkur, upp á einhverja milljarða króna og svo er önnur til tekna þar sem um er að ræða sölu eigna o.s.frv. Nettóniðurstaðan af þessu á að vera 350 millj. kr. en okkur í fjárlaganefnd er algjörlega fyrirmunað að átta okkur á því hvernig sú niðurstaða er fengin. Þetta er eins ógegnsætt og hægt er að hugsa sér.

Það er bráðnauðsynlegt að fá á þessu mikla bót. Þær tillögur komu meðal annars frá okkur í starfshópi fjárlaganefndar um breytingar á fjárlagagerðinni, þ.e. að innleiða það sem ég vil kalla útgjaldaheimild, að hennar sé leitað áður en til slíkra útgjalda er stofnað. Ég vona að það sé ágæt samstaða um slíkt og ætla að það verklag yrði til mikilla bóta þannig að þá kæmi fram rökstuðningur og ósk um að fá að ráðstafa tilteknu fé og þar yrðu líka leidd fram áhrifin á fjárhag ríkissjóðs ef af greiðslunni yrði. Við þurfum að gera miklar bætur á þessu regluverki öllu og vonandi tekst okkur að gera það.