140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:07]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir þær þakkir sem hafa verið færðar formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir samstarfið í nefndinni og eins til annarra nefndarmanna fyrir samstarfið þar. Þessi nefnd starfar að mjög flóknum úrlausnarefnum hvað varðar eftirlit með fjárreiðum ríkisins og um leið að því að leggja drög að fjárlögum fyrir næsta ár. Jafnframt hafa staðið yfir breytingar á starfsemi nefndarinnar sem gera það að verkum að ýmsir þættir eru með nokkuð öðru sniði á þessu ári en verið hefur um langa tíð. Um leið gefur það nefndinni og Alþingi tækifæri til að breyta ýmsu í starfsfyrirkomulagi nefndarinnar og gerir nefndinni betur kleift að sinna skyldum sínum, sinna eftirliti með ríkisfjármálunum. Um leið hafa menn kannski dregið að nokkru úr, og það er breytingin sem hefur orðið á hinum svokölluðu safnliðum, aðkomu nefndarinnar að slíkum málum. Ég vænti þess að niðurstaðan verði sú að efla getu nefndarinnar til að sinna þeim skyldum sem ég hef nefnt.

Hvað varðar fjáraukalögin eru nokkur atriði sem ég vil gera að umtalsefni. Ég vil byrja á því að ræða aðeins, eins og margir aðrir sem hér hafa talað, um Sparisjóð Keflavíkur og uppgjörið á honum með aðkomu ríkisins og hvernig þetta er síðan fært í fjáraukalög.

Það er rétt að hafa þá reglu í heiðri þegar kemur að umræðu um hvernig færa skuli þessa þætti að þegar um er að ræða tekjur eiga menn að vera mjög gætnir í því að færa þær nema full vissa sé fyrir því að þær skili sér inn og um leið eiga menn að vera mjög á tánum um það að færa þann kostnað sem menn óttast að falli á ríkið. Ef menn telja líkur til þess að kostnaður falli á ríkið er eðlilegt að færa slíkan kostnað, varúðarsjónarmið með öðrum hætti.

Við höfum séð til dæmis í tillögugerð hjá framkvæmdarvaldinu þegar frumvarp til fjáraukalaga er lagt fram að þar var gert ráð fyrir því að tekjur skili sér vegna sérstakra aðgerða ríkisins á vaxtabótum þar sem áætlaðar voru tekjur upp á 6 milljarða, þar af 1,4 milljarða frá lífeyrissjóðunum sem byggðu á því að samkomulag næðist við lífeyrissjóðina um slíka greiðslu. Það samkomulag er ekki enn þá fast í hendi. Samt sem áður eru tekjurnar færðar í áætlanir. Úr því að menn eru tilbúnir að ganga svo langt að færa tekjur á grundvelli samkomulags sem alls er óvíst að gangi fram, og virðast vera áhöld um hvaða skilning menn leggja í það samkomulag, hefði ég talið að um leið væri hægt að gera þá kröfu að menn færu í það minnsta mjög varlega í að vanáætla kostnað á sama tíma. Það liggur núna fyrir, og það liggja fyrir yfirlýsingar af hálfu ríkisvaldsins og framkvæmdarvaldsins um það, að vegna yfirtökunnar á SpKef muni ríkið þurfa að greiða að minnsta kosti 11,2 milljarða. Ég tel þess vegna eðlilegt í ljósi þess sem ég sagði áðan um þau varúðarsjónarmið sem þurfa að vera uppi um þessar færslur að það sé varúðarsjónarmið og eðlileg krafa að færðir séu í fjáraukalögin að minnsta kosti þessir 11,2 milljarðar þar sem ríkið sjálft hefur lýst því yfir að það sem út af stendur sé munurinn á milli þeirra krafna sem standa vegna innstæðna annars vegar og vegna þeirra eigna sem yfirteknar voru hins vegar. Síðan er sjálfsagt að geta um það í skýringum að það er möguleiki að krafan verði enn hærri, að ríkissjóður þurfi að greiða út enn hærri upphæð því að nú er í einhvers konar gerðarferli sú krafa Landsbankans að ríkið þurfi að greiða töluvert miklu meiri fjármuni og inna af hendi hærri greiðslu vegna þess að í staðinn fyrir að út af standi einir 11,2 milljarðar standa að mati Landsbankans út af um 30,6 milljarðar sem er auðvitað umtalsvert hærri tala. Ég er ekki að mæla með því að slík tala verði sett í ríkisreikningana en að lágmarki þessir 11,2 og síðan getið um þær kröfur sem á ríkið standa. Þannig tel ég eðlilegast að færa þetta bókhald.

Annað atriði úr 4. gr. frumvarpsins sem snýr að 6. gr. fjárlagafrumvarpsins, heimildargreinunum svokölluðu, er það sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson nefndi í ræðu sinni um kaup ríkisins á Kalmanstjörn og Junkaragerði. Í sjálfu sér ætla ég ekki að gera ágreining um þau kaup. Það kann að vera ágætisrökstuðningur fyrir þeim. Þó hefði ég talið eðlilegt að áður en fjárlaganefnd og síðan þingið gefur heimild fyrir þessari upphæð upp á einar 1.230 milljónir hefði í það minnsta komið til fjárlaganefndar rökstuðningur fyrir verðmati að baki þessum kaupum. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson fór ágætlega yfir það vinnuferli sem liggur að baki þeirri ákvörðun og þeirri niðurstöðu, en ég tel að það hefði verið skynsamlegt og eðlilegt að formaður fjárlaganefndar hefði til dæmis beitt sér fyrir því að slíkar upplýsingar hefðu komið inn til nefndarinnar og nefndin getað tekið afstöðu til þeirra. Má ég þá benda á að í þeirri umræðu sem hér hefur verið um Vaðlaheiðargöng er sérstaklega gert ráð fyrir því að ekki verði ráðist í neinar framkvæmdir og ekkert gert fyrr en fjármálaráðherra hefur mætt á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir því hvort þessi framkvæmd standi undir sér eða ekki og þeim rökum sem þar eru undir. Ég tel að við afgreiðslu þessa liðar um Kalmanstjörn og Junkaragerði hefði verið eðlileg krafa af hálfu þingsins að það sæi nákvæmlega hvernig þetta verðmat var unnið upp á einar 1.230 milljónir sem auðvitað er alveg umtalsverð fjárhæð.

Annað atriði, herra forseti, sem ég vil gera að umtalsefni snýr að Kvikmyndasjóði, eða öllu heldur kvikmyndagerð. Í fjárlögum fyrir árið 2011 var gert ráð fyrir því að 157 milljónir kynnu að renna til endurgreiðslu á kostnaði við kvikmyndagerð. Reglurnar eru þannig að allt að 20% af kostnaði við kvikmyndagerðina geta fengist endurgreiddar úr ríkissjóði. Hugmyndin að baki því er sú að laða til landsins erlenda kvikmyndagerð sem síðan skilar störfum og umsvifum í hagkerfinu og það réttlæti útgreiðslur úr ríkissjóði.

Þetta mál á sér nokkra forsögu. Þegar þessar reglur voru settar minnir mig að endurgreiðsluhlutfallið hafi verið 12% og það síðan verið hækkað upp í 20% á árinu 2009. Enn hafa ekki skilað sér nein stór erlend verkefni en það kann auðvitað að vera að það verði á næstu árum og þá vil ég í það minnsta vekja athygli á því að þarna er, ef svo má að orði komast, opinn krani og ef um er að ræða mjög stór verkefni, innlend eða erlend, er hér um að ræða töluverð útgjöld fyrir ríkissjóð. Vissulega koma tekjur á móti en ég hef ekki enn þá séð á vettvangi fjárlaganefndar úttekt á því hversu miklum tekjum hefur verið skilað til ríkissjóðs vegna þessarar kvikmyndagerðar.

Um er að ræða, eins og ég nefndi áðan, heimild í fjárlögum á árinu 2011 upp á 157 milljónir. Nú er talið að áfallinn kostnaður á árinu sé um 700 milljónir sem er langt umfram það sem áætlað var að yrði á árinu 2011. Þar af hefur iðnaðarráðuneytið nú þegar greitt út 350 milljónir og eftir standa um 400 milljónir ógreiddar sem hugmyndin er að verði færðar yfir á næsta ár. Hér er óskað eftir heimild til að setja inn í fjáraukann ákveðinn hluta þeirrar fjárhæðar.

Í fyrsta lagi verð ég að játa að mér finnst þetta svolítið á skjön við þá umræðu sem hefur verið um fjárframlög til kvikmyndagerðar á Íslandi. Mér þykir þetta nokkuð há upphæð. Ég get ekki orða bundist með það að mér finnst 700 milljónir út úr ríkissjóði vera umtalsverð fjárhæð. Þess vegna tel ég rétt og eðlilegt að við beitum okkur fyrir því að fá einhvers konar greiningu á því hvað ríkissjóður fær til baka vegna þessarar starfsemi.

Í öðru lagi þurfum við að hugsa um hvernig við viljum haga þessum málum í framtíðinni. Það skapar heilmikla óvissu um ríkisútgjöldin ef það er svo opið kerfi að ef viðkomandi aðilar uppfylla ákveðnar kröfur geti þeir sjálfvirkt fengið greiðslur úr ríkissjóði. Ég er ekki með þessum orðum að segja að ég telji að íslensk kvikmyndagerðarlist sé ofhaldin, en þetta eru háar tölur og við stöndum frammi fyrir gríðarlega miklum erfiðleikum í rekstri ríkissjóðs. Það er rétt að velta fyrir sér hvort þetta fyrirkomulag geti verið til langs tíma.

Hvað varðar Vaðlaheiðargöng sem hér hafa nokkuð verið rædd tek ég undir þær athugasemdir sem hafa komið fram hjá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni og fleirum um það fyrirkomulag sem hér er lagt upp með. Auðvitað liggur líka fyrir um leið, og Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt á það mikla áherslu, að ráðist verði í átak í vegamálum, bæði vegna þess að það er um margt mjög skynsamlegt fyrir uppbygginguna um allt land en líka vegna þess að umferðaröryggi og tengingar á milli landshluta skila heilmiklu til baka í ríkiskassann. Það skiptir máli. Einbreiðar brýr eru slysagildrur sem og erfiðir vetrarvegir. Í gær hlustuðum við í þingsalnum á umræðu um vegamál á sunnanverðum Vestfjörðum. Það verður að segjast að það er fullkomið hneyksli hvernig búið er að koma þeim málum öllum fyrir. Ég geri því ekki athugasemd við að ráðist sé í þessar framkvæmdir, en ég velti því upp hvort ekki sé ástæða til að við skoðum á vettvangi þingsins og í samráði við borgarstjórn Reykjavíkur hvaða verkefni hægt er að ráðast í á Reykjavíkursvæðinu.

Ég tel einsýnt að menn fari að hefjast handa við Sundabrautarverkefnið sem er margbúið að rannsaka, margbúið að fara í gegnum og margbúið að ræða. Þetta er gríðarleg samgöngubót fyrir okkur Reykvíkinga og það er alveg nauðsynlegt, rétt eins og það er nauðsynlegt að hefjast handa víða um land, að koma þeim framkvæmdum af stað. Að mínu mati ber Reykjavík, höfuðborg landsins, heilmiklar skyldur í samgöngumálum. Ein er sú að hér verði áfram flugvöllur sem þjóni öllu landinu. Ég tel það gríðarlega mikilvægt mál, en um leið tel ég líka mjög mikilvægt að það sé skilningur á Alþingi fyrir því að samgöngubætur í borginni eru mikilvægar út frá öryggissjónarmiðum og um leið mjög hagkvæmar. Rétt eins og það þarf að vera skilningur á því hjá okkur í Reykjavík að hér þurfi að vera flugvöllur sem sinnir öllu landinu þarf líka að vera skilningur á því í þingsalnum að nauðsynlegt er að fara í samgönguframkvæmdir í Reykjavík sem eru bæði hagkvæmar og auka öryggi. Það er góður tími til þess núna, herra forseti, að fara í slíkar aðgerðir. Það er eftirspurn eftir því í öllum verktakageiranum að hafist verði handa við slík verkefni.

Að lokum vil ég nefna, herra forseti, að alltaf er uppi umræða um eðli fjáraukalaganna, núna sem áður. Það er uppi það vandamál og það agaleysi að inn á fjáraukann eru sett atriði sem í raun ættu ekki að vera þar inni. Á fjáraukann eiga að koma útgjöld vegna kjarasamninga, ófyrirséðra atburða og lagasetningar. Þess vegna velta menn til dæmis fyrir sér útgjöldum vegna afmælis Háskóla Íslands sem ég fullyrði að var fyrirsjáanlegur atburður. Það hefði átt að finna slíkum útgjöldum stað í fjárlögum ársins 2011, það hefði mátt vera búið að skipuleggja það. Ýmis önnur atriði eru í ólagi varðandi fjáraukann sem of langt mál er að telja upp en beinir sjónum okkar aftur að því verkefni og þeim breytingum sem eru að verða núna á starfsemi fjárlaganefndar.

Eitt af því sem væri umhugsunarvert, sérstaklega í ljósi þeirrar þróunar sem við höfum séð við fjármögnunina á Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsinu, og nýtt hátæknisjúkrahús, hvernig þessum hlutum er komið fyrir í ríkisreikningi, er hvort ekki sé líka eðlilegt að við hugum að langtímaplönum fyrir ríkissjóð, byggðum á þeim lögum, reglum og útgjöldum sem liggja fyrir á hverju ári og menn reyni að sjá þá fyrir sér næstu tíu árin og jafnvel 20 þegar kemur að fjárlögum ríkisins. Þar væri þá gerð grein fyrir öllum þeim útgjöldum sem búið er að samþykkja og menn sæju þau með svipuðum hætti og var gert í tilviki Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúss. Ég held að það gæti verið áhugavert fyrir okkur, nú þegar verið er að endurskipuleggja starfsemi og starf fjárlaganefndar.

Herra forseti. Það voru ekki öllu fleiri atriði sem ég ætlaði að gera að umtalsefni í þessari ræðu minni. Við fáum væntanlega til okkar í fjárlaganefnd fleiri tillögur til breytingar á fjáraukanum, ég óttast það að minnsta kosti og tek undir orð sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hafði í sinni ræðu um að það er ekki góður bragur á því þegar verið er að smáýta þessum hlutum í gegnum þingið. Við þyrftum að hafa meiri aga hvað þessa hluti varðar þannig að strax komi fram þeir þættir sem eiga að fara inn í fjáraukann. Ég ítreka það og kalla eftir því að það verði skoðað milli 2. og 3. umr. hvort hvort það endurspegli ekki varfærnissjónarmið að færa til dæmis inn í fjáraukann núna það sem við vitum að mun falla á ríkið vegna Sparisjóðs Keflavíkur. Þar með mættum við því varúðarsjónarmiði að það sem við sjáum fram á að verði kostnaður fyrir hið opinbera, fyrir ríkið, verði fært til bókar en ekki mjakað áfram. Það gefur um leið réttari mynd af stöðu ríkisins.