140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:24]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir flest það sem fram kom í prýðilegri ræðu hv. þingmanns. Umræðan í dag hefur að hluta til verið um samgöngumál sem ekki er óeðlilegt þar sem um er að ræða stórt og mikið verkefni sem þar er í brennipunkti, Vaðlaheiðargöngin. Það beinir sjónum okkar að öðrum stórum samgönguverkefnum sem hugsanlega væri hægt að velta af stað með svipuðum hætti þegar ekki er til fjármagn í ríkissjóði til að fara í hefðbundnar ríkisframkvæmdir.

Stórar framkvæmdir gætu orðið mikill aflvaki í samfélaginu þar sem notendagjöld í einhverri mynd gætu staðið undir fjármögnuninni. Oft hefur verið talað um skuggagjaldaleið, að ríkið mundi greiða fyrir notkun, en það er ekki í boði núna. Vaðlaheiðargöng eru leyst með þessum hætti sem ég held að sé mikið gleðiefni eins og ég lýsti áðan. Ég tek undir það sem hv. þingmaður nefndi með Sundabrautina, það er eitt af þessum risastóru samgönguverkefnum á Íslandi sem mikill ávinningur væri af að komast í. Samfélagslegur ávinningur af því væri mjög mikill. Eins nefndi ég áðan að það hafi verið mikil vonbrigði á sínum tíma að ekki skyldi nást samstaða um útfærslu á tvöföldun vega á suðvesturhorninu, samkomulag sem sveitarfélögin, ríkið, lífeyrissjóðirnir og aðrir fjármögnunaraðilar væru sáttir. Það varð einhvern veginn að engu í bili og þar með frestast mikilvægar framkvæmdir. Þá fer ekki mikið fjármagn inn í atvinnulífið, en á því er þörf.

Ég spyr hv. þingmann hvort ekki sé meira en skoðunar virði að fara sömu leið með Sundabraut og farið er með Vaðlaheiðargöng, að fara með hana í einkaframkvæmd þannig að notendagjöld mundu standa undir framkvæmdinni. Það er nefnilega annar kostur til hliðar fyrir þá sem ekki vilja greiða gjöldin (Forseti hringir.) þannig að ekki er verið að mismuna fólki eða leggja tolla á þjóðveg 1 án þess að valkostur (Forseti hringir.) sé til staðar.