140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:53]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið sammála hv. þm. Kristjáni Möller um margt er varðar framfarir í vegagerð og samgöngumálum og -bótum á landinu. En ég verð að segja að mér þykir það mjög miður hvernig hv. þingmaður og reyndar ýmsir fleiri reyna alltaf að slíta sundur friðinn í þessum sal og í þessu landi með því að skipta okkur upp í tvo hópa, annars vegar landsbyggðina og hins vegar höfuðborgarsvæðið. Í ræðu sinni gerði hv. þingmaður því skóna að öðru máli gilti um Hörpu en Vaðlaheiðargöng. Vegna hvers? Vegna þess að Harpa sé á þeim stað sem hann kallaði þann fallegasta í höfuðborginni. Og að eitthvað óeðlilegt sé við endurfjármögnun lána sem tekin voru til þess að byggja þetta góða tónlistarhús okkar landsmanna allra, og það sé af því sprottið að það sé á höfuðborgarsvæðinu og sé eign höfuðborgarbúa — það er einfaldlega ekki rétt.

Ég vil rifja það upp hvernig að Hörpu var staðið á sínum tíma. Auðvitað var í allt of mikið lagt og mannvirkið allt of dýrt og mikið. Það var ekki bara framúrkeyrsla og lúxus, það varð líka tiltekinn forsendubrestur út af hruninu, hv. þingmaður. Þegar ríkið kom að verkinu á sínum tíma eftir hrun var um þrennt að ræða: Að moka ofan í holuna, láta hana standa sem minnismerki um hrunið eða halda áfram. Það voru tvær kjarkmiklar konur, Katrín Jakobsdóttir, hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, sem tóku þá ákvörðun að halda verkinu áfram. Ég segi fyrir mig að við eigum að vera þakklát fyrir að eiga þetta fallega hús og við eigum að viðurkenna að það er húsið okkar allra og það er hús fyrir alla tónlist í landinu.