140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:56]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talar um að verið sé að slíta í sundur friðinn á Alþingi. Já, það getur vel verið, en ég spyr: Hver er að því?

Við landsbyggðarmenn megum sífellt sitja undir því hér og úti í þjóðfélaginu að allt sem við gerum eða komum að eða leggjum til eða færum til Alþingis sé kjördæmapot, sem eru þá óskir frá íbúum og fólk hefur rætt við þingmenn sína, sem er mjög eðlilegt. Mér finnst mjög eðlilegt að rætt hafi verið um framtíðaruppbyggingu Hörpu við þingmenn Reykjavíkurkjördæma. Þeir eiga að vera sérfræðingar á því sviði og tala um þau mál á Alþingi þegar þess gerist þörf. Ég er mjög sáttur við það fyrirkomulag.

Þetta er eiginlega deildaskipt, má segja, eins og deildaskipting í fyrirtæki. Það er ekkert að því að það sé þannig. En það er ekki alltaf talað um kjördæmapot í tengslum við þingmenn Reykjavíkurkjördæmis eða höfuðborgarsvæðisins þegar einhverjum málum er fylgt eftir. Ég segi ekki að það sé kjördæmapot, ég segi að það séu eðlileg vinnubrögð að menn vinni með þingmönnum sínum sem eiga að vera meira inni í hlutunum á ýmsum stöðum, alveg eins og við setjum okkur inn í verkefni okkar í kjördæmum okkar og umbjóðendur okkar tala um verkefni okkar, og svo framvegis.

Virðulegi forseti. Ég átti þátt í því að tala fyrir því að haldið yrði áfram með byggingu Hörpu eftir hrun og ég er stoltur af því. Ég er stoltur af því að hafa lagt mitt lóð á vogarskálarnar hvað það varðar og að húsið sé næstum tilbúið. Það kostaði sitt og það er allt í lagi með það. Vonandi verður það okkur til framdráttar og það verður það um ókomin ár. Þetta er tónlistarhöll okkar Íslendinga allra, það er rétt. Forsendurbrestur? Jú hann var líka á öðrum stöðum þó að ýmsir menn séu nú ekki tilbúnir að viðurkenna það.

Það sem ég gerði að umtalsefni var: Af hverju er ekki farið í gegnum ýmsa aðra þætti í þessum fjáraukalögum eins og t.d. kaupin á orkusvæðinu á Reykjanesi eða viðbótarfé til Hörpu eða reiknað út og hvað Harpa (Forseti hringir.) mun kosta okkur næstu 30–40 ár miðað við það peningaútboð sem (Forseti hringir.) eiga mun sér stað á næsta ári?