140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:44]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég fór örlítið yfir það í ræðu minni við 1. umr. um frumvarp til fjáraukalaga að fjáraukalagafrumvarp hvers árs væri ákveðinn kompás, ákveðin afstilling á því hvernig gengið hefði á yfirstandandi fjárlagaári að halda fjárlög, halda rekstri ríkisins á því plani sem lagt var upp með í upphafi árs, og þeim áætlunum sem lagt var upp með, bæði tekju- og útgjaldamegin, og mæta jafnframt þeim áföllum sem koma auðvitað upp á hverju einasta ári. Ég var þeirrar skoðunar þá og er þeirrar skoðunar enn að fjáraukalagafrumvarpið sem við förum hér yfir sé vísbending um að okkur miði í rétta átt. Um það eru mörg teikn á lofti, bæði í frumvarpinu og utan úr samfélaginu, hjá innlendum og erlendum aðilum sem leggja mat á stöðu ríkissjóðs, og fleira mætti nefna. Fjáraukalagafrumvarpið er óbeinn mælikvarði á það hvernig okkur hefur tekist að nota fjárlögin sem það stjórntæki sem hv. þm. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir nefndi í lok ræðu sinnar áðan og það á auðvitað að vera.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður nefndi, ég hélt sömuleiðis um tíma að við værum að ræða annað mál en fjáraukalagafrumvarp, en hér er hvorki um að ræða frumvarp um húsbyggingar né vegamál svo því sé haldið til haga, þó að það, rétt eins og önnur frumvörp er varða fjármál ríkisins, snerti auðvitað þá þætti með óbeinum hætti.

Ég sagði í upphafi að fjáraukalagafrumvarpið væri vísbending um hvernig okkur miðaði og í hvaða átt við stefnum. Hér hefur talsvert verið vitnað í álit Ríkisendurskoðunar á fjáraukalagafrumvarpinu, bæði til að draga úr trúverðugleika fjármálastjórnarinnar hjá ríkinu og ekki síður til að undirstrika það sem jákvætt hefur verið. Ég ætla að leyfa mér að vitna í álit Ríkisendurskoðunar hvað þetta varðar, með leyfi forseta. Í því segir orðrétt:

„Fjáraukalög hafa lengi verið notuð til þess að auka á útgjöld miðað við fjárlög viðkomandi árs. Á tímabilinu 2003–2007 námu fjáraukalögin þannig að meðaltali 6% af samþykktum fjárlögum hvers árs. Árið 2008 var þetta hlutfall tæplega 8%, enda var þá brugðist við ýmsum kostnaði vegna falls bankanna þá um haustið. Í fjáraukalögum fyrir árið 2009 voru útgjöld hækkuð um rúm 2% frá fjárlögum, en árið 2010 voru þau lækkuð lítillega. Frumvarp til fjáraukalaga 2011 gerir ráð fyrir hækkun útgjalda upp á 2,8% frá fjárlögum. Samkvæmt þessu verður ekki annað ráðið en að meiri aga gæti nú en oftast áður þegar kemur að því að samþykkja ný útgjöld í fjáraukalögum.“

Þarna er kannski ekki kveðið mjög sterkt að orði, en það er hafið yfir allan vafa að við erum þó á réttri leið. Ríkisendurskoðun hnykkir auðvitað á því að við höfum ekki náð viðmiðunarlöndum okkar í þessu sambandi þar sem fjáraukalög fara ekki umfram 1% af fjárlögum, en þangað ætlum við okkur auðvitað að fara. Á þessu kunna líka að vera ýmsar skýringar þannig að samanburður á milli landa í þessu er ekki alltaf sanngjarn eða réttmætur. En á réttri leið erum við, ég er ekki í nokkrum vafa um það og hef margsinnis fært rök fyrir því úr ræðustól þingsins.

Umræðan hér hefur öðru fremur snúist um nokkur tæknileg atriði, þ.e. hvernig á að færa til bókar skuldir og skuldbindingar og hugsanlegar og væntanlegar tekjur, áætlaðar tekjur eða áætluð gjöld. Þar hefur m.a. verið nefnd færsla á tekjum þar sem við væntum þess að lífeyrissjóðir greiði upp í þá rúmu 6 milljarða sem fóru í sérstakar vaxtagreiðslur og lífeyrissjóðunum var ætlað að taka þátt í. Rætt hefur verið um hugsanleg útgjöld og þar hefur verið dálítill áherslumunur hvort rétt sé að færa tekjur sem ekki eru í húsi í bókhaldið, sem menn eru almennt ekki fylgjandi, en svo segja menn í næsta orði að auðvitað eigi að færa gjöld sem ekki eru fallin, áætluð áfallin gjöld, í bókhaldið til að fá sem réttasta mynd. Þetta eru meira og minna tæknileg atriði sem við höfum auðvitað rætt í fjárlaganefnd, bæði við Ríkisendurskoðun, við fjármálaráðuneytið og aðra sem málið varðar.

Hinu ber auðvitað að halda til haga að um þessi mál er getið í fjáraukalagafrumvarpinu sjálfu sem lagt var fram fyrr í haust, sérstaklega varðandi skuldbindingar og hugsanlegar skuldbindingar sem þarf að taka tillit til í kafla um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir. Sömuleiðis í kafla um sjóðstreymi ríkissjóðs. Þar er m.a. ítarlega farið yfir stöðu málefna Sparisjóðs Keflavíkur hins fyrrverandi, kaupa Landsbankans á því þrotabúi og hugsanlegum áföllum sem ríkið gæti lent í hvað það varðar. Um þetta er ítarlega fjallað í frumvarpinu, ég ætla nú ekki að lesa það hér upp en hvet þingmenn til að kynna sér það. Þar kemur fram sú varúðarregla sem menn hafa ítrekað bent á og ekki er dregið úr því að þarna getur verið talsverð áhætta á ferð. Við erum ekki að færa okkur undan því með nokkrum hætti með fjáraukalagafrumvarpinu eða þeirri breytingu sem við gerum á frumvarpinu með því áliti og breytingartillögu sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt fram.

Sömuleiðis hefur verið rætt um nokkur tæknileg atriði varðandi hugtakið frumjöfnuð sem er mörgum mjög kært á meðan aðrir gera minna úr því. Í nefndaráliti sínu bendir minni hluti fjárlaganefndar á að ekki sé rétt að nota hugtakið í þessu sambandi. Orðrétt segir í áliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„Nú eru notuð hugtökin heildarjöfnuður og frumjöfnuður til að draga fram tilteknar upplýsingar. Minni hlutinn er sammála athugasemdum Ríkisendurskoðunar sem gerðar voru við þessa framsetningu í umsögn stofnunarinnar dagsettri 7. nóvember 2011.“

Ríkisendurskoðun segir í áliti sínu, með leyfi forseta:

„Í 1. gr. fjárlaga, rekstraryfirlits ríkissjóðs, eru notuð hugtökin heildarjöfnuður og frumjöfnuður. Þetta er hliðstætt því sem gert var í frumvarpi til fjárlaga og í fjárlögum 2011. Þessi framsetning hafði hins vegar ekki tíðkast fram til þess tíma.“

Þetta er dálítið undarleg umræða, virðulegi forseti, bæði af hálfu Ríkisendurskoðunar og annarra sem hafa tjáð sig um þetta mál. Haustið 2008 var gert ákveðið samkomulag á milli ríkisstjórnar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annarra landa sem voru að reyna að hjálpa Íslandi á fæturna. Það samkomulag fólst í að Ísland mundi setja sér að ná tilteknum markmiðum í efnahagsmálum. Í skýrslu sem flutt var hér í sumarbyrjun 2009 um það mál segir, með leyfi forseta:

„Í áætlun þeirri sem hér er birt, eru dregin saman þau markmið í ríkisfjármálum sem íslensk stjórnvöld hafa einsett sér að ná á komandi árum. Þessi markmið eru í samræmi við og byggð á samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þau miða að því að koma á jafnvægi og stöðugleika í ríkisfjármálum og þjóðarbúskapnum, og þar með að skapa forsendur fyrir nýja uppbyggingu í efnahags- og atvinnulífi. […] Til að ná þessum meginmarkmiðum er gert ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs verði …“

Síðan kemur upptalning á því hver hann á að vera næstu árin. Ítrekað er í skýrslunni og í gögnum frá þessum tíma, allt frá því við lögðumst í þá vegferð að reyna að ná tökum á ríkisfjármálunum í samstarfi við aðrar þjóðir, og lögð áhersla á það að ná tilteknum markmiðum í frumjöfnuðinum sem er auðvitað grunnhugtak í þessu sambandi. Hann segir okkur umfram annað hvort við erum að ná tökum á rekstrinum, hvort reksturinn er að skila einhverju upp í vaxtagjöld, hvort reksturinn er að ganga, skila afgangi eða er það dapur að við náum ekki einni einustu krónu upp í það sem þarf að greiða í vexti af skuldum. Því er fráleitt að halda fram að hér sé um einhverja millitölu að ræða, eitthvað sem segir okkur ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta er ein af grunnforsendum þess hvort við getum lagt mat á árangur eða árangursleysi í rekstri ríkisins hverju sinni. Um þetta hélt ég að væri ekki deilt almennt.

Þrjú mál hafa verið hér öðrum málum fremur til umræðu, þ.e. heimild til að fara í framkvæmdir við gerð Vaðlaheiðarganga, endurfjármögnun á tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu og kaup á landi Reykjanesbæjar. Það er skiljanlegt. Þarna er um háar tölur að ræða. Í öllum þessum tilfellum hefur hvert skref sem stigið hefur verið verið vel undirbúið, sérstaklega þó ákvörðun um að heimila fjármálaráðherra að fjármagna gerð Vaðlaheiðarganga. Allt frá vorinu 2010 þegar það mál kom til umræðu á Alþingi og í samgöngunefnd, hafa allar ákvarðanir í því máli verið vel valdaðar og varðar af samþykktum Alþingis, ríkisstjórnar, ákvörðun ráðherra og fyrirtækisins sjálfs, þ.e. Vaðlaheiðarganga hf., allt fram á þennan dag. Um þetta mál hefur margsinnis verið fjallað á Alþingi og af hálfu ríkisstjórnarinnar auk þess sem ráðherra hefur margsinnis tjáð sig um það og lýst áhuga sínum og hvatt til þess að því yrði haldið áfram. Það er ekki með nokkrum góðum rökum hægt að halda því fram að hér sé um einhverjar skyndiákvarðanir að ræða eða illa undirbúið mál. Nú er einfaldlega komið að því að taka ákvörðun, byggða á þeim gögnum sem unnin hafa verið í þessu máli árum saman. Sú vinna og þau gögn gefa fullt tilefni til að ætla að framkvæmdin geti gengið eftir samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti um hana í júní á síðasta ári.

Annað málið varðar Hörpu. Einfalt mat eigenda fyrirtækisins, þ.e. Austurhafnar, Reykjavíkurborgar og ríkisins, á stöðunni er að ódýrara sé fyrir eigendurna og fyrirtækið að eigendurnir fjármagni um skamman tíma umframkostnað við Hörpu upp á 700 millj. kr., þar af er hlutur ríkisins rétt tæpar 400 millj. kr., þar til ráðist verður í endurfjármögnun allra skulda fyrirtækisins sem verða þá upp undir 18 milljarðar kr. Hvers vegna fer fyrirtækið ekki á lánamarkað? Hvers vegna bankar það ekki upp á hjá einhverju fjármálafyrirtæki og óskar eftir fyrirgreiðslu? Til er einfalt svar við því eins og forsvarsmenn fyrirtækisins upplýstu fjárlaganefnd um: Fyrirtækið á ekkert veð. Það er ekki talið lánshæft. Það getur ekki lagt fram neinar tryggingar fyrir þeim lánum sem það þarf á að halda. Einfalt mat er að þetta sé ódýrasta leiðin fyrir alla aðila og sömuleiðis sú hagstæðasta fyrir ríkið.

Varðandi kaup á landi á Reykjanesbæ, er í stuttu máli verið að gera upp skuld Reykjanesbæjar við ríkið sem ekki hefur tekist að innheimta og Reykjanesbær hefur ekki getað greitt öðruvísi en framselja land fyrir skuldinni, auk þess að fá greitt tiltekinn hluta í milligjöf upp í það verðmat sem lagt var á landið og kaupin á landinu af þar til bærum aðilum.

Ég nefni þessi þrjú mál hér sérstaklega af því að þau hafa verið öðrum málum fremur til umræðu í dag og snerta auðvitað fjárlög ársins og fara sum væntanlega inn á næsta ár, það sem ekki nýtist á þessu ári. Allt eru þetta mál sem hafa verið í ágætum undirbúningi og fyrir liggja ítarleg gögn um þau öll og á þeim eru ákvarðanir og tillögur meiri hluta fjárlaganefndar byggðar. Það er því tillaga fjárlaganefndar til Alþingis að fallist verði á þær tillögur að fjármálaráðherra verði veitt ótvíræð heimild um að ráðast í að fjármagna gerð Vaðlaheiðarganga, að lánað verði til Austurhafnar, þ.e. eignaraðila Hörpu, til að brúa umframkostnað þar til tekst að endurfjármagna fyrirtækið, og að gera upp skuld við Reykjanesbæ með því að kaupa af þeim land. Það myndar auðvitað eign á móti hjá ríkinu, auk þess sem ríkið fær væntanlega einhverjar tekjur af rekstri landsins og þeim auðlindum sem þar eru.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar en orðið er, virðulegi forseti, en vil þakka fyrir það sem liðið er af henni. Ég tel að umræðan hafi að stærstum hluta verið mjög málefnaleg og góð og tekist á um málin með sanngjörnum hætti. Fyrst og fremst vil ég undirstrika að ég tel að fjáraukalagafrumvarpið sem við ræðum hér sé vísbending um að stjórnvöld séu komin með ágætistök á rekstri ríkisins.