140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

239. mál
[17:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með síðari breytingum.

Í þessu litla frumvarpi er lögð til breyting á 2. málslið 4. mgr. 13. gr. laganna og er það gjört í kjölfar athugasemda sem Fjármálaeftirlitið gerði til stjórnar LSR um að stjórninni bæri að hækka iðgjöld vegna tryggingafræðilegrar stöðu A-deildar LSR. Samkvæmt athugasemdum Fjármálaeftirlitsins lítur eftirlitið svo á að lögin um LSR séu sérlög sem gildi um LSR og gangi framar almennum ákvæðum lífeyrissjóðslaga, laga nr. 129/1997, og því eigi 39. gr. þeirra laga ekki við um A-deild LSR með sama hætti og hún gildir almennt um lífeyrissjóði, heldur 2. málsliður 4. mgr. 13. gr. laganna um LSR, þ.e. laga nr. 1/1997.

Þessi túlkun var mönnum ekki áður kunn og eru reyndar efasemdir um hana af hálfu margra sérfræðinga innan fjármálaráðuneytisins. Fundað hefur verið um þetta mál í framhaldinu, m.a. átti fjármálaráðuneytið fund með Fjármálaeftirlitinu í maí sl. þar sem farið var rækilega yfir þær athugasemdir og ræddar mögulegar leiðir til að bregðast við, og það er í sjálfu sér einfalt að þær geta verið nokkrar. Í fyrsta lagi er hægt að skerða réttindin til að draga úr skuldbindingum sjóðsins. Í öðru lagi væri að sjálfsögðu hægt að gefa út skuldabréf eða jafna stöðu sjóðsins með fjármunum úr ríkissjóði. Þriðji kosturinn væri að hækka umtalsvert framlag launagreiðenda. En í fjórða lagi, og það er það sem lagt er til hér, er að vikmörk 39. gr. laga um almenna lífeyrissjóði, nr. 129/1997, verði ótvírætt látin taka sömuleiðis til A-deildar LSR. Það sé þá gert með skýrri lagabreytingu þannig að það sé hafið yfir vafa að sams konar sveiflujöfnun megi viðhafa í uppgjöri LSR þessi árin og gripið hefur verið til gagnvart almennum lífeyrissjóðum.

Allt frá árinu 2000 hefur tryggingafræðileg staða A-deildar verið neikvæð og alltaf án athugasemda frá eftirlitsaðilum fram að þessu. Stjórn LSR hefur ávallt talið að 39. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, ætti við um A-deild LSR og þar af leiðandi talið sig fyllilega innan marka laganna þegar iðgjaldaprósentunni hefur verið haldið þar óbreyttri síðustu ár þrátt fyrir þann halla sem hefur verið á deildinni.

Það er að sjálfsögðu rétt og skylt að taka hér af allan vafa og því er með frumvarpinu lagt til að farin verði þessi leið og lögum um LSR breytt á þann hátt að sömu reglur gildi um A-deild LSR og aðra lífeyrissjóði hvað varðar svigrúm fyrir sveiflur á þessum tímabundnu erfiðleikatímum í stöðu lífeyrissjóðanna. Þetta fyrirkomulag er að sjálfsögðu ekki hugsað til langrar framtíðar heldur eingöngu á meðan lífeyrissjóðirnir eru að komast yfir það óróleikatímabil sem gengið hefur yfir í þeirra málum eins og almennt í efnahagslífi okkar.

Málefni lífeyrissjóða almennt eru í víðtækri skoðun í sérstökum þar til bærum nefndum þar sem unnið er að því að ná saman um framtíðarfyrirkomulag þeirra mála og þar á meðal hvernig hinn opinberi hluti lífeyrissjóðakerfisins verði gerður sjálfbær hvað framtíðina snertir og tekist verður á við uppsafnaðan fortíðarvanda sem að sjálfsögðu þarf að undirbúa að mæta á komandi árum. Það er önnur saga.

Hér er á ferðinni mjög einföld lagabreyting sem öll rök að mínu mati standa til að grípa til núna þannig að þessi lagatúlkun flækist þá ekki frekar fyrir mönnum.

Ég vænti þess að þingið fallist góðfúslega á að gera þessa litlu breytingu og því fyrr því betra þannig að stjórn LSR, Fjármálaeftirlitið og fjármálaráðuneytið og aðrir sem að málinu koma séu þá sáttir við stöðu mála

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði vísað til hv. fjárlaganefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.