140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

239. mál
[17:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra kom aðeins inn á það atriði sem mig langar til að spyrja hann um í fyrra andsvari mínu. Í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er bent á að nokkrir lífeyrissjóðir á almennum markaði hafi frá árinu 2009 skert réttindi sjóðfélaga sinna með breytingum á samþykktum sínum til að koma á samræmi milli skuldbindinga og réttinda. Er það gert út frá tryggingafræðilegum sjónarmiðum og það er einmitt það sem þetta frumvarp gengur út á, að leyfa meiri vikmörk en lögin gera ráð fyrir, en það er samkvæmt bráðabirgðaákvæði sem gildir líka um almennu sjóðina.

Þessi ábending fjárlagaskrifstofunnar endurspeglar muninn á lífeyriskerfum opinberra starfsmanna annars vegar og starfsmanna almenna markaðarins hins vegar. Svo kom hæstv. ráðherra inn á það að samstarf væri milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar um heildarendurskoðun í lífeyrismálum. Að því er ég man rétt var ákvæði um þetta í stöðugleikasáttmálanum árið 2009. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvenær hann eigi von á að einhver niðurstaða komist í þessi mál. Nú er þetta starf búið að vera í gangi í rúmlega tvö ár. Þetta eru auðvitað mjög umfangsmikil kerfi og varða grundvallarréttindi launafólks, en hitt er annað mál að brýnt er að fara að ræða af alvöru breytingar á skipan lífeyrismála á Íslandi.