140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

239. mál
[17:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni, það er mjög stórt og brýnt viðfangsefni að komast áfram með þessi mál. Sem betur fer hefur tekist að halda öllum saman við borðið og menn hafa haldið fundi og ráðstefnur og greint þessi mál mjög vel og ýmis slík vinna hefur verið unnin sem gagnast við að bera þetta saman og leggja línur til framtíðar litið.

Ég er sömu skoðunar að það er að sjálfsögðu mjög margt unnið með því að gera lífeyrisréttindi landsmanna almennt sem sambærilegust og að vinnumarkaðurinn verði einsleitur að þessu leyti. Það mun hins vegar líka kalla á að endurskoða kjörin og samræma þau því að um leið og við samræmum lífeyrisréttindin og ávinnslan þar verður sambærilegri við vinnumarkaðinn er náttúrlega þess að vænta að menn geri þá líka kröfur um að þeir njóti nokkurn veginn sambærilegra kjara á almennum jafnt sem opinberum vinnumarkaði.

Ef hvort tveggja er til staðar er ljóst að vinnumarkaðurinn er sveigjanlegri og þá skiptir menn minna máli hvort þeir eru að vinna tímabundið hjá einkaaðilum eða hinu opinbera, ef réttindaávinnslan er nokkurn veginn einsleit og kjörin svipuð. Í heildina og til framtíðar litið held ég að það sé best fyrir þjóðina að þessi réttindi séu jöfnuð og þá sem mest upp á við, að sjálfsögðu, þannig að allir landsmenn búi við góð skilyrði þegar þeir láta af störfum og hafi þá lagt vel í sjóð til að eiga fyrir lífeyrisgreiðslum sínum.

Já, það er talsverður uppsafnaður vandi frá fortíðinni sem enn þarf að takast á við en hið góða er þó það að við eigum nokkurn tíma á höndum til að undirbúa okkur undir það. Því fyrr sem við erum komin með afgang á ríkissjóði og getum farið að leggja til hliðar og borga inn á þær framtíðarskuldbindingar, þeim mun betra er það, og það ber ábyrgum stjórnvöldum að gera, að (Forseti hringir.) huga að slíku tímanlega. Ég sé það fyrir mér að strax og ríkissjóður er kominn (Forseti hringir.) með umtalsverðan afgang, t.d. á árinu 2014 og árunum þar á eftir hefjist (Forseti hringir.) inngreiðslur inn á fortíðarvandann.