140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

skilgreining á sameiginlegum hagsmunum Vestur-Norðurlanda.

196. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. ÍVN (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins, þskj. 201, mál 196, um skilgreiningu á sameiginlegum hagsmunum Vestur-Norðurlanda í ljósi breyttrar stöðu norðurslóða í alþjóðakerfinu af völdum loftslagsbreytinga.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að standa fyrir skilgreiningu, í samstarfi við Færeyjar og Grænland, á sameiginlegum hagsmunum Vestur-Norðurlanda í ljósi þeirra breytinga sem hlýnandi loftslag hefur á undanförnum áratugum haft í för með sér fyrir norðurskautið og alþjóðakerfið allt. Ráðstefna verði haldin á vegum utanríkisráðuneyta landanna með þátttöku stjórnmálamanna og sérfræðinga til að ræða og vinna að samkomulagi um sameiginlega stefnu landanna gagnvart þessum breytingum.“

Greinargerðin hljóðar svo:

„Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins, nr. 1/2011/, sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 24. ágúst 2011 á Bifröst.

Verulegar breytingar á umhverfi og veðurfari hafa átt sér stað á Vestur-Norðurlöndum undanfarna áratugi. Þessar breytingar hafa haft ýmsar afleiðingar, ekki síst aukin efnahagsleg umsvif í tengslum við nýtingu á þeim auðlindum sem á svæðinu er að finna sem og auknar siglingar um norðurskautið. Í kjölfar þessara breytinga sýna nú sífellt fleiri ríki svæðinu aukinn áhuga.

Staða Vestur-Norðurlanda í alþjóðakerfinu er því í mikilli þróun. Mikilvægt er að löndin þrjú tryggi sér miðlægt hlutverk í pólitískri ákvarðanatöku varðandi málefni norðurslóða og Norður-Atlantshafsins og verði þannig betur í stakk búin til að vernda eigin hagsmuni.

Í ljósi þessa telur Vestnorræna ráðið tímabært að vestnorrænu löndin standi fyrir skilgreiningu á hagsmunum sínum með tilliti til þessara breyttu aðstæðna til að geta staðið vörð um hagsmuni sína á svæðinu. Löndin gætu mótað sameiginlega stefnu um málefni norðurslóða en slíkt mundi styrkja pólitíska vigt landanna þriggja og veita þeim aukin tækifæri til að hafa áhrif á þróun mála á svæðinu.

Sem fyrsta skref er lagt til að utanríkisráðuneyti landanna standi fyrir ráðstefnu þar sem leitast yrði við að skilgreina sameiginlega hagsmuni landanna þriggja í málefnum norðurslóða. Sérstaklega yrði litið til þeirra álitamála sem upp kunna að koma vegna aukinna efnahagslegra umsvifa á svæðinu og til hlutverks alþjóðlegs samstarfs í lausn deilumála sem upp kunna að koma vegna auðlindanýtingar.“

Ég mun hér næst mæla fyrir tillögu til þingsályktunar frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins um að gefa íbúum vestnorrænu landanna kost á að flytja ...

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmann um að geyma flutning á næsta þingmáli þar til forseti hefur tekið það til afgreiðslu eða til kynningar. Hv. þingmaður hafði lokið máli sínu með framsetningu á skilgreiningu á sameiginlegum hagsmunum Vestur-Norðurlanda.)