140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

frumvarp um stjórn fiskveiða.

[15:02]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Í síðustu viku átti hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fund með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis þar sem hann kynnti efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Þar kom fram að fiskveiðistjórnarfrumvarp hafi nú þegar verið lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar, sem er ekki rétt, og í öðru lagi að það ætti að klára það frumvarp fyrir áramót.

Í ljósi þess að frumvarpið hefur enn ekki litið dagsins ljós spyr ég hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvenær hann hyggist leggja nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp fyrir Alþingi. Það gengur ekki að undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútveginum, sé haldið í þeim heljargreipum og óvissu sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á undangengnum tveimur árum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvaða leið ætlar hann að fara til að leysa þetta mál? Á að byggja frumvarpið á vinnu sáttanefndarinnar sem skilaði nokkuð samhljóma áliti eða á að leggja aftur fram það frumvarp sem birtist í sumar þótt nær allir umsagnaraðilar lýstu sig mótfallna því frumvarpi sem þá var lagt fram?

Ég spyr líka um samráðið við stjórnarandstöðuna og við hagsmunaaðila í þessari atvinnugrein. Hvernig hefur því verið háttað? Stendur virkilega til að endurtaka leikinn frá því í vor og leggja fram sama frumvarp? Þetta vinnulag gengur einfaldlega ekki þannig að ég hvet hæstv. ráðherra til að svara þessum spurningum um hvenær hann hyggist leggja fram frumvarp um breytt fiskveiðistjórnarlög. Því miður hefur í á þriðja ár verið lítil fjárfesting í þessari atvinnugrein. Þess vegna hefur störfum ekki fjölgað eins mikið og við hefðum viljað sjá. Þessari stöðu verður að breyta og þess vegna er mikilvægt að hæstv. ráðherra svari þessum fyrirspurnum og gefi skýr skilaboð (Forseti hringir.) um það hvenær stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar er að vænta í þessu mikilvæga máli.