140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

ráðning forstjóra Bankasýslunnar.

[15:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Vefmiðillinn Pressan flutti 11. nóvember sl. frétt um að fjármálaráðuneytið vildi ekki staðfesta heimildir fjölmiðilsins um að Þorsteinn Þorsteinsson, þáverandi formaður stjórnar Bankasýslu ríkisins, hefði látið fjármálaráðuneytið vita þegar 29. september að stjórnin teldi Pál Magnússon, bæjarritara í Kópavogi, hæfastan umsækjenda um stöðu forstjóra Bankasýslunnar. Hafði Pressan heimildir fyrir því að Þorsteinn hefði rætt við Þórhall Arason, skrifstofustjóra fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er þessi frétt Pressunnar rétt? Var fjármálaráðuneytinu gert viðvart með þessum eða öðrum hætti áður en tilkynningin var send út frá Bankasýslunni um að Páll Magnússon hefði verið ráðinn og/eða gengið frá ráðningu hans?

Ég held að flestum sem þekkja til þyki það vægast sagt líklegt og ef svo hefði ekki verið held ég að hæstv. ráðherra þurfi að útskýra af hverju það er. Það væri örugglega einsdæmi ef það hefði verið gengið fram með þeim hætti án þess að hæstv. fjármálaráðherra hefði verið tilkynnt um það.

Þarna kom frétt um að hæstv. fjármálaráðherra hefði fengið að vita þetta á undan, og fjármálaráðuneytið, og ég bið hæstv. ráðherra að svara því hvort þetta sé rétt eða hvort það sé rangt.