140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

gjaldeyrishöft.

[15:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Á fimmtudaginn kynnti hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra nýja efnahagsáætlun sem unnin var í framhaldi af þeirri efnahagsáætlun sem hefur verið í gildi milli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda. Þar getur svo sem sitthvað fróðlegt að lesa og meðal annars er þar kafli sem heitir Peningamálastefna til framtíðar. Í þeim kafla segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Grundvallarspurningar um gjaldmiðilinn sjálfan eru á borði Alþingis og ríkisstjórnar vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu og vegna þess að ljóst er að íslenska krónan sem sjálfstæður gjaldmiðill verður í viðjum hafta með einum eða öðrum hætti framvegis.“

Þetta er heilmikill boðskapur. Hér er málunum stillt upp með tvenns konar hætti. Annars vegar er sá valkostur að Ísland gangi í Evrópusambandið og gerist aðili að evrunni eða að við búum við sjálfstæðan gjaldmiðil sem verður þá í viðjum hafta framvegis, ekki um þrjú ár, ekki um fimm ár eins og boðað var í frumvarpi hæstv. ríkisstjórnar, heldur er verið að tala um höft á íslensku krónunni að eilífu, amen. Þetta eru gríðarlega mikil tíðindi og það leynir sér ekki þegar maður les þennan texta að sá sem stýrir pennanum í þessum kafla hefur ekki mjög mikla trú á íslensku krónunni. Það er gagnstætt því sem mér hefur heyrst vera hjá hæstv. fjármálaráðherra sem hefur hvað eftir annað varað við því að íslenska krónan sé töluð niður og einmitt talað um að hún hafi reynst okkur verðmætt tæki í þeim þrengingum sem við höfum gengið í gegnum.

Þess vegna finnst mér það vera mjög alvarlegur hlutur þegar tímasetning afnáms gjaldeyrishaftanna er boðuð hér þannig að þau verði einfaldlega ekki afnumin. Með öðrum orðum er verið að boða varanleg höft. Þess vegna leita ég eftir áliti hæstv. fjármálaráðherra á þessu, hér er ekki um að ræða prívatáætlun (Forseti hringir.) samfylkingarráðherra, hér er um að ræða efnahagsáætlun sem íslensk stjórnvöld leggja fram í framhaldi af samstarfsyfirlýsingunni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.