140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

gjaldeyrishöft.

[15:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að eitt af stóru viðfangsefnunum sem við erum með fyrir framan okkur er að móta peningamála- og gjaldmiðilsstefnu til frambúðar. Við hljótum að þurfa að móta hana með hliðsjón af því hverjar gætu orðið mögulegar sviðsmyndir á komandi árum og ég nota þann einfalda rökstuðning þegar ég segi að ég muni ekki standa að því að móta neina aðra peningamála- og gjaldmiðilsstefnu en þá sem gerir ráð fyrir krónunni sem að minnsta kosti jafngildum kosti og öðrum, meðal annars af þeirri einföldu ástæðu að jafnvel þótt við lykjum samningum við Evrópusambandið og settum þá í þjóðaratkvæðagreiðslu kynni þjóðin að hafna þeim. Auðvitað mundu engin ábyrg stjórnvöld vilja þá standa uppi með enga peningamálastefnu af því að þau hefðu sett allt sitt traust á það að við værum á leið í Evrópusambandið og tækjum upp evru. Þetta hefur verið margrætt í samskiptum ráðuneyta við Seðlabankann og ég hygg að það sé ekki djúpstæður ágreiningur um það.

Það er alveg ljóst að það er krefjandi verkefni að innleiða þann aga hér í hagstjórn og ríkisfjármálum að við getum haldið úti með stöðugleika okkar litla gjaldmiðli. Enginn hefur sýnt mér fram á að það sé ekki hægt. Mistök fortíðarinnar eru ekki sönnun þess að ekki sé hægt að standa betur að málum á komandi árum. Ég held að það megi leggja þann skilning í þetta orðalag, án þess að það sé mitt sérstaklega að túlka það, sem er ekkert leyndarmál, að menn gera ráð fyrir því að áður en gjaldeyrishöft eða takmarkanir á fjármagnsflutningum verða að fullu afnumin muni þurfa að koma til einhver þjóðhagsvarúðarstýritæki í staðinn sem gera það mögulegt og raunhæft að fleyta gjaldmiðlinum og hafa hér bankastarfsemi jafnvel með viðskipti yfir landamæri án þess að stöðugleiki raskist. (Forseti hringir.) Ég legg slíkan skilning í að þá kæmu í staðinn önnur þjóðhagsvarúðarstýritæki sem yrðu þá að tryggja okkur stöðugleika (Forseti hringir.) og lífvænlegt ástand í þessum efnum en áætlun er í gildi um að afnema gjaldeyrishöftin. Það er unnið (Forseti hringir.) samkvæmt henni.