140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur farið fram á skýrslu frá Ríkisendurskoðun um heimildir fjármálaráðherra til ríkisábyrgða finnst mér mjög óeðlilegt að það sé verið að flýta þessu máli svo mikið því að ríkisendurskoðandi hefur tilkynnt að þessari skýrslu verði skilað til Alþingis í næstu eða þarnæstu viku. Það kemur fram í áliti ríkisendurskoðanda, sem fylgir með þessu fjáraukalagafrumvarpi, að í því sé ekki mælt fyrir um hvað felist í samþykkt Alþingis á ríkisreikningi fyrir utan að í 13. gr. laga um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, segir að skaðabótaábyrgð ráðherra gagnvart ríkissjóði falli niður samþykki Alþingi ríkisreikning án fyrirvara nema ráðherra hafi beitt svikum.

Frú forseti. Þarna er komin skýringin á þessari flýtivinnu hér með fjáraukalagafrumvarpið fyrir 2010. Hæstv. fjármálaráðherra vantar heimildir til að fara fram með þessar ríkisábyrgðir.