140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:45]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég var í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra fyrr á þessum fundi og þær skýringar sem gefnar eru á þessum kaupum þykja mér ekki nægilega góðar. Það er gefin sú skýring að hér sé verið að leysa Reykjanesbæ úr einhverri snöru. Ef ég man rétt er heimild í núgildandi tekjuskattslögum til að fresta greiðslu fjármagnstekjuskatts og hluti af kaupverðinu hjá Reykjanesbæ á HS Orku var greiddur með skuldabréfi sem gefur greiðslufrest til 2016. Í mínum huga er um að ræða forgangsröðun sem setur kaup á auðlind í eigu opinbers aðila framar því að nýta það sama fjármagn sem hér um ræðir, 1.230 millj. kr., til að forða illa grunduðum niðurskurðartillögum í heilbrigðis- og velferðarþjónustu landsins.