140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að læða í gegn máli sem var mikið til umræðu fyrir nokkru síðan, nánar tiltekið hvorki meira né minna en einkavina — einkavæðing á Byr. (Gripið fram í: Einkavinavæðing?) Já, virðulegi forseti, einhverra hluta vegna missti ég það orð út úr mér.

Þá sagði hvorki meira né minna en einn aðal hv. þingmaður stjórnarliðsins, virðulegi forseti, að þetta kæmi bara engum við — svo ég fari nokkurn veginn yfir það hvað sagt var — hvert kaupverðið væri, það kæmi í ljós eftir eitt og hálft ár og þá gætu menn bara séð það.

Ég spyr: Veit einhver hér inni eða einhver úti í þjóðfélaginu hvert kaupverðið er? Hefur einhver hugmynd um það? Hér á að læða þessu í gegn eins og ekkert sé af ríkisstjórn gagnsæisins hvorki meira né minna, með hæstv. verkstjóra (Forseti hringir.) Jóhönnu Sigurðardóttur í forsæti.

Virðulegi forseti. Ég mælist til þess að þetta mál verði dregið til 3. umr. og að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari almennilega yfir málið, því að það (Forseti hringir.) þarf að upplýsa hvað hér er á ferðinni.