140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:07]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Fréttamaður RÚV orðaði afgreiðslu á þessu máli, þ.e. afgreiðslu Alþingis á nákvæmlega þessum lið, sem formsatriði fyrir nokkrum dögum. Þetta væri ákveðið formsatriði sem þyrfti að uppfylla, við værum sem sagt aftur orðin afgreiðslufólk á lagakassa eins og talað var um hér í framhaldi af hruninu.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis voru gerðar margar athugasemdir við einkavæðingu bankanna á sínum tíma. Þar á meðal var talað um að liggja þyrfti fyrir hverjir kaupendurnir væru og hvernig matið á kaupendunum ætti að fara fram. Í þessu tilviki vitum við ekki einu sinni hverjir kaupendurnir eru. Við vitum ekki hver áform þeirra eru, við vitum ekki hvert kaupverðið er. Það liggur ekki fyrir nein stefna enn þá frá stjórnvöldum varðandi uppbyggingu fjármálamarkaðarins.

Ef við lítum svo á að við eigum að draga einhvern lærdóm af þeirri blessuðu skýrslu virðist lærdómurinn einna helst vera sá hvernig við eigum að gera nákvæmlega eins (Forseti hringir.) eða jafnvel bæta í.