140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:10]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við heyrðum hér enn eina góða ástæðu fyrir því að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum í landinu næstu áratugina ef mögulegt er. Það er greinilegt af framlögðum gögnum Vaðlaheiðarganga hf. að forsendur þeirra ganga ekki upp. Tveir plús tveir eru fimm samkvæmt þeirra tölum eða jafnvel 11 milljarðar eða 15 milljarðar sem munu svo lenda á ríkissjóði.

Það sorglega við þetta mál er að Alþingi hafnar því að bíða eftir óháðu áliti ríkisendurskoðanda á þessum tölum. Alþingi er að hafna því að sá eftirlitsaðili sem það hefur ráðið til starfsins skili áliti á þessu. Og eins og fram kom í máli hv. þm. Illuga Gunnarssonar er þetta framlag hv. formanns fjárlaganefndar um að fá þetta mál aftur til fjárlaganefndar áður en heimildin verður veitt algjörlega marklaust og innihaldslaust.

Þetta frumvarp verður væntanlega afgreitt héðan sem lög á miðvikudaginn, eftir tvo daga, með þetta galopið, verðmiði upp á 15–20 milljarða sem lendir á skattgreiðendum eftir örfá ár.