140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Saga Sparisjóðs Keflavíkur er löng og hún er ekki eitthvað sem dettur af himnum ofan. Það átti hæstv. fjármálaráðherra að vita fyrir löngu síðan og grípa til ráðstafana.

Það sem við horfum nú á gerðist á vakt hæstv. fjármálaráðherra. Ég nota einmitt það orðalag af því að ég kannast við það af öðru tilefni.

Stofnað var félag sem rekið var í einhverja mánuði og var vitað að það gekk ekki. Við erum að tala um að það vanti 10,3 milljarða eða 11,2 milljarða, lágmark, og ég minni á að niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu er um 1,5 milljarðar. Það er tífaldur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu (VigH: Hneyksli.) sem á að gusa út vegna mistaka, vegna þess að ekki var tekið nógu hratt á málunum. Ég segi: Það gerðist á vakt hæstv. fjármálaráðherra. Ég segi nei við þessu.