140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

afgreiðsla fjáraukalaga.

[16:31]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það var ótrúlegt að hlusta á hv. þm. Björn Val Gíslason. Á fundi fjárlaganefndar í síðustu viku voru ítrekað gefnar ábendingar um afgreiðslu á heimildum til fjármálaráðherra um Vaðlaheiðargöng. Ekki er lengra síðan en í hádeginu í dag að rætt var á fundi þingflokksformanna að allt of hratt væri farið með þetta mál í gegnum þingið með því að reyna að afgreiða það núna eftir tvo daga. Ég tek því undir það sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði áðan um að sest verði niður með þingflokksformönnum og framganga þessa máls rædd.

Það hefur ítrekað komið fram hjá hv. formanni fjárlaganefndar að hún er að gefa hér einhverjar yfirlýsingar um framgang málsins sem eiga sér enga stoð í lögum og enga stoð í þingsköpum og skipta ekki nokkru einasta máli. Það þarf náttúrlega að koma einhver skýring á því hvað hún á við með þeim yfirlýsingum um að fjárlaganefnd fái málið aftur til meðferðar þegar búið er að afgreiða það sem lög frá Alþingi. Þetta eru fáránlegar yfirlýsingar, nema þær séu skýrðar betur en gert hefur (Forseti hringir.) verið hingað til.