140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

afgreiðsla fjáraukalaga.

[16:32]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil beina þeim óskum mínum til virðulegs forseta — í ljósi þess að við ljúkum 2. umr. og atkvæðagreiðslu um fjáraukalög fyrir árið 2011 þar sem forseti hefur beitt sér fyrir því að breyta þingsköpum og gert það af stakri prýði í samvinnu og sátt við þingflokksformenn og þingmenn — að horft verði til þess að þegar verið er að samþykkja að setja út úr ríkissjóði milljarða í fjáraukalögum fyrir utan fjárlög þurfum við hér á þingi að hafa ríflegan meiri hluta þingmanna sem taki ákvörðun um slíkt, hvort heldur það er afgreiðsla fjárlaga eða fjáraukalaga.

Ég vil því beina þeim tilmælum til virðulegs forseta að þegar hún ásamt þingflokksformönnum og fleirum fer í endurskoðun á þingsköpum verði horft til þessa. Það er vart boðlegt að fjáraukalög séu, og hver greinin á fætur annarri, samþykkt með (Forseti hringir.) 20 atkvæðum þegar hér eiga sæti 63 þingmenn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)