140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

afgreiðsla fjáraukalaga.

[16:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Svo það komi fram er ég starfandi þingflokksformaður fyrir Framsóknarflokkinn í dag, ég óska því eftir að fá þetta fundarboð á eftir úr því að nú hefur stjórnarandstaðan lagt okkur lið samkvæmt ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur.

Það gætir einskis pirrings hjá mér varðandi þessi mál því að ég lít þetta mál grafalvarlegum augum. Hér er ekki um skemmtiefni að ræða. Hér er verið að útdeila milljörðum á milljarða ofan, ríkisábyrgðum á ríkisábyrgðir ofan og fólk heldur bara að við séum að grínast.

Virðulegi forseti. Ég kann ekki við svona málflutning eins og kom hér fram og þar að auki hefur ríkisstjórnin staðið sig mjög illa, því að einungis hafa komið fram 14 ríkisstjórnarmál það sem af er vetri og ekki verða lögð fram mál í næstu viku því að þá er nefndavika.

Frú forseti. Mig langar til að ljúka máli mínu með því að fara fram á það á nýjan leik og fá svar frá forseta þingsins hvort ekki sé hægt að senda erindi til ríkisendurskoðanda og spyrja hvenær (Forseti hringir.) ríkisábyrgðarskýrslan sem er þar í smíðum verði tilbúin, því að Alþingi ræður jú ríkisendurskoðanda og það er það embætti sem á (Forseti hringir.) að vera okkur alþingismönnum til aðstoðar við eftirlit með framkvæmdarvaldinu.