140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

afgreiðsla fjáraukalaga.

[16:42]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég sé mig knúinn til að koma hérna upp og leiðrétta það sem hv. þm. Oddný Harðardóttir sagði. Þegar dagskrá þessa fjáraukalagafrumvarps var ákveðin í fjárlaganefnd var það gert áður en þær upplýsingar komu fram t.d. um Vaðlaheiðargöng, þar sem verið er að fjalla um mál sem er með alveg glórulausri framsetningu fyrirtækisins sjálfs sem leggur fram upplýsingarnar. Það er ekki eins og ég sé að leggja þær fram eða einhverjir pólitískir andstæðingar, það er fyrirtækið sjálft sem leggur fram upplýsingar þar sem það óskar eftir ríkisábyrgð. Það er ekki stafur á blaði um það hver tekjuáætlun þess fyrirtækis er, svo koma þingmenn hingað og tala um eins og þetta skipti engu máli. Það er skiljanlegt að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir vilji flýta þessu máli í gegn, enda er hér um að ræða ríkisfjármögnun á einkaframkvæmd, fyrir einkafyrirtæki sem flokkur hennar og hugmyndafræði hennar hefur staðið gegn alla tíð, en það bara breytist allt í einu af því að nú eru þau við völd.