140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

afgreiðsla fjáraukalaga.

[16:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér finnst dálítið sérkennilegt að hlusta á það að þingmenn tala nú eins og þeir séu að koma að mörgum málum algjörlega nýjum og hafi ekkert af þeim heyrt áður. Í tilviki Byrs var bankinn settur í opið söluferli fyrir opnum tjöldum og allir fylgdust með því. (Gripið fram í.) Besta tilboði var tekið og gengið til viðræðna við Íslandsbanka, sem er kaupandinn. Ríkið er þarna alger minnihlutaaðili, á um 10% í bankanum, þannig er um ráðstöfun á óverulegum eignarhlut ríkisins í hinu endurfjármagnaða fyrirtæki að ræða. Ég hef þegar upplýst að ríkið fær að uppistöðu til upphafsstofnfjárhæð sína til baka í þeim viðskiptum. (Gripið fram í.) Síðan hafa eftirlitsaðilar allir samþykkt þennan samruna, (Gripið fram í.) Samkeppniseftirlitið, Fjármálaeftirlitið og ESA. Í tilviki Sparisjóðs Keflavíkur var hann sameinaður Landsbankanum með samningum fyrr á árinu.

Varðandi Vaðlaheiðargöng hefur verið unnið að þeirri framkvæmd árum saman, Alþingi setti lög til undirbúnings framkvæmdinni, stofnun hlutafélags (Forseti hringir.) um framkvæmdina, ríkisstjórn valdar hvert einasta skref í málinu. Hv. þingmenn eiga því að þekkja nokkuð til forsögunnar. Mér finnst menn vera dálítið að gera út á það í umræðunni eins og þetta sé allt nýtt fyrir mönnum. Þá hlýt ég (Forseti hringir.) að spyrja: Hvar hafa menn verið undanfarin missiri ef þeir geta byggt málflutning sinn á slíku? (Gripið fram í.)