140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

opinber þjónusta í Þingeyjarsýslum.

148. mál
[16:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Þann 25. maí síðastliðinn var undirrituð viljayfirlýsing milli ríkisstjórnar Íslands, Norðurþings, Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar og Tjörneshrepps. Þar var farið yfir málefni þessara sveitarfélaga og þá atvinnuuppbyggingu sem fyrirhuguð er með orkunýtingu í Suður-Þingeyjarsýslu. Í þeirri viljayfirlýsingu segir, með leyfi frú forseta:

„Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að nýta jarðvarma í Þingeyjarsýslum til umfangsmikillar atvinnuuppbyggingar og eflingar byggðar á svæðinu. Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að staðinn verði vörður um opinbera þjónustu á svæðinu sem nauðsynlegt er þegar til uppbyggingarinnar kemur. Með viljayfirlýsingu þessari er stefnt að því að skapa þær aðstæður að allri nauðsynlegri forvinnu verði lokið þegar gengið verður til samninga við einn stóran orkukaupanda eða fleiri minni orkukaupendur um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í Þingeyjarsýslu.“

Fulltrúar sveitarfélaga í Þingeyjarsýslu stóðu í þeirri trú að staðinn yrði vörður um opinbera þjónustu á þessu svæði eins og stendur í þessari viljayfirlýsingu. Það var því algjört reiðarslag þegar fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar leit dagsins ljós í byrjun októbermánaðar síðastliðinn þar sem kveðið var á um 9% niðurskurð, m.a. á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, sem hefði þýtt það að á síðustu þremur árum, ef þetta nær fram að ganga, er búið að skera fjárframlög til heilbrigðisstofnunarinnar niður um 33%, um þriðjung. Ef þetta verður ekki leiðrétt þarf að öllu óbreyttu að loka sjúkrahúsinu á Húsavík.

Það er því eðlilegt að Þingeyingar spyrji hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnina, sem stóð að þessari viljayfirlýsingu, hvort til standi að fylgja viljayfirlýsingunni eftir og draga þar með til baka þann niðurskurð sem boðaður er í fjárlagafrumvarpinu. Það skiptir máli hvaða yfirlýsingar menn gefa og undir hvaða samkomulag menn skrifa. Ríkisstjórnin hefur orðið uppvís að því að hafa ekki staðið við stöðugleikasáttmálann gagnvart Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Stendur þá til að fara eins með þessa viljayfirlýsingu gagnvart sveitarfélögum í Þingeyjarsýslu?

Það var ákveðið áfall að Alcoa skyldi hafa hætt við þá atvinnuuppbyggingu sem til stóð, en við þurfum að halda áfram og við þurfum að efla innviðina. Þess vegna má það ekki gerast að fyrsta verk ríkisstjórnarinnar á árinu 2009 verði að skera niður framlög til opinberra aðila á þessu svæði sem þurfa að (Forseti hringir.) standa undir ákveðinni grunnþjónustu þannig að við getum haldið áfram, ef við ætlum okkur eitthvað með þá yfirlýsingu, að byggja upp (Forseti hringir.) í Þingeyjarsýslu.