140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

opinber þjónusta í Þingeyjarsýslum.

148. mál
[16:56]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég held að það sé afar mikilvægt að við greinum dálítið þessa viljayfirlýsingu því að þar kemur fram að það eigi að vinna greiningarvinnu, þar sem eigi að skoða innviðina. Það stendur ekki, en má lesa það á milli línanna, það á að reyna að nýta þá reynslu sem við höfum, t.d. vegna framkvæmdanna á Miðausturlandi. Það stendur líka að það skipti máli að við tökum ekki innviðina svo mikið í nefið með niðurskurði að þeir skemmist til frambúðar, það skiptir mjög miklu máli. Þar finnst mér vera lykilatriði að við horfum til lengri tíma, almennt þurfum við að horfa til lengri tíma og móta stefnuna til lengri tíma þannig að allir séu viðbúnir þeim breytingum sem eiga að verða.

Síðan langar mig bara til að minnast örlítið á framhaldsskólann. Það var mjög vel gert að setja ákveðið gólf á Framhaldsskólann á Húsavík til að sá góði skóli geti haldið starfi sínu áfram, en við verðum að gæta þess að því verði haldið áfram. Síðan verðum við að horfast í augu við að bættar (Forseti hringir.) samgöngur geta breytt þjónustueiningum talsvert.