140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

skattur á umhverfisvænt eldsneyti.

190. mál
[17:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er spurt um hvernig háttað sé skattlagningu á umhverfisvænt eldsneyti, þ.e. orkugjafa eins og metan, vetni, rafmagn og lífdísil. Því er fljótsvarað. Engir skattar eru lagðir á þessar tegundir orkugjafa nema virðisaukaskattur, þ.e. metan, vetni og lífdísill bera hvorki olíugjald, bensíngjald né kolefnisgjald eða önnur slík gjöld. Á rafmagn er að vísu lagður 12 aura skattur á hverja kílóvattstund, en það er lagt á alla notendur raforku í landinu óháð því hvers eðlis notkunin er.

Þá vil ég nefna sérstaklega því til viðbótar að 1. janúar síðastliðinn tóku gildi lög sem kveða á um gjaldfrelsi vistvæns eldsneytis, þ.e. íblöndunar þess í hefðbundna orkugjafa. Þannig að til viðbótar því að það sé skattfrjálst ef menn nota eingöngu metan, vetni, rafmagn eða lífdísil, er íblöndun vistvænna orkugjafa í bensín eða olíur sömuleiðis skattfrjáls. Þar með lækkar olíugjaldið eða bensíngjaldið sem viðkomandi aðili greiðir.

Varðandi framtíðarfyrirkomulag þessarar skattlagningar er þar hreyft við stóru máli. Það er að sjálfsögðu bæði æskilegt og hagkvæmt í þjóðhagslegu samhengi að vistvænt eldsneyti sé undanþegið hefðbundnum eldsneytisgjöldum eins lengi og þess er nokkur kostur, eða í þeim mæli sem mögulegt er, þannig stuðla stjórnvöld að aukinni notkun þess enda hefur margt verið gert til að hraða þeirri þróun. Ég nefni t.d. að í ár er í gildi sérstakur stuðningur við þá sem breyta bílum sínum í metanbíla, þ.e. fyrstu þúsund bílarnir sem breytt verður á þessu ári fá stuðning allt að 100 þús. kr. Þannig að til viðbótar því að eldsneytið er án skattlagningar er sérstakur beinn fjárstuðningur við breytingarkostnaðinn til að hraða þróuninni og koma henni betur af stað. Síðan binda menn að sjálfsögðu vonir við að eftir því sem fleiri bílum hefur verið breytt verði það hagstæðara og verkstæði betur útbúin til að vinna þá þjónustu.

Ég held að á þessu stigi mála sé mikilvægt að stjórnvöld taki ekki beina afstöðu til tiltekinna tæknilausna í orkumálum og ætli sér ekki þá dul að stýra því fyrir fram í hvaða farveg þetta fer nákvæmlega, m.a. vegna þess að tækniþróun erlendis og þær lausnir sem erlendir vélaframleiðendur eru að velja eða munu velja munu ráða mestu um það hvernig umferðarflotinn verður samansettur í framtíðinni, þangað til við förum að framleiða okkar eigin bíla og ákveðum á hverju þeir skuli ganga.

Ég tel því að enn um sinn eigum við að hlúa að þessari þróun með því að undanþiggja hana sköttum eða fara mjög vægt af stað í þeim efnum, en ég sé heldur ekki forsendur til þess að niðurgreiða með beinum hætti aðra orkugjafa til samgangna. Mörkin verði dregin þar að við hlífum þeim við skattlagningu eins lengi og mögulegt er á meðan verið er að ýta undir að umhverfisvæn þróun ryðji sér til rúms á þessu sviði.

Hitt verður að hafa í huga að almennt hefur það verið eldsneyti sem hefur verið skattlagt til að fjármagna uppbyggingu samgöngukerfisins í þágu annarra almannaþarfa. Því eru að sjálfsögðu takmörk sett hversu hátt hlutfall óskattlagðrar umferðar getur orðið áður en það kerfi springur. Þar af leiðandi þarf að huga að því hvernig við búum okkur undir þessa framtíð þó að sú stund sé ekki alveg runnin upp enn.

Allt bendir til þess að vænlegast verði að skattleggja notkunina sjálfa, þ.e. sjálfan aksturinn, jafnskjótt og tækni býður upp á það. Vaxandi hluti bílaflotans verður á komandi árum útbúinn slíkri staðlaðri tækni og hún mun verða ódýrari eftir því sem tímar líða. Þannig að innan skamms mun endurnýjun bílaflotans sjálfs fara að bjóða upp á að notkunin sjálf sé mæld og skráð og eftir atvikum að hún sé andlag skattlagningarinnar. Þá er jafnvel hægt að hafa hana mismunandi eftir gæðum veganna sem ekið er á og þar fram eftir götunum. Enda þekkja menn auðvitað af eigin raun slíka sjálfvirka gjaldtöku, t.d. er stærstur hluti umferðar um Hvalfjarðargöng núna gjaldlagður með slíkum hætti.

Þetta ásamt auðvitað mörgu fleiru er til skoðunar í fjármálaráðuneytinu. Við reynum að fylgjast mjög grannt með þróun þessara mála, bæði hvað varðar tækniframfarir en líka þær aðferðir sem nágrannaríkin eru að taka upp í sambandi við skattlagningu.

Ég nefni líka að við höfum gjörbreytt undirstöðu bifreiðagjalda með því að gera losun koltvíoxíðs að andlagi skattlagningarinnar þar, þannig að satt best að segja hefur mjög mikið gerst í þessum málum á allra síðustu missirum. Skattkerfi okkar er mun betur í stakk búið til að takast á við þetta í dag en það var fyrir fáeinum missirum síðan. (Forseti hringir.) Það er rétt að það þarf líka að undirbúa stór framtíðarmál og setja þau í farveg. Ég held að menn geti treyst því að í tíð þessarar ríkisstjórnar verður hlúð að umhverfisvænni (Forseti hringir.) þróun í samgöngunum eftir því sem aðstæður ríkisins frekast leyfa, enda hefur það verið gert.