140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

skattur á umhverfisvænt eldsneyti.

190. mál
[17:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni andsvarið og hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf.

Það er auðvitað ekkert skrýtið að við þá skattstefnu ríkisins sem hefur verið kennd við hina ensku setningu „you ain't seen nothing yet“, sem hæstv. ráðherra sagði á skattaráðstefnu endurskoðendafyrirtækja fyrir einhverjum missirum, og allar þær breytingar sem hafa orðið á skattkerfinu séu landsmenn aðeins hikandi og óttist að allt í einu breytist leikreglurnar eftir að þeir hafi tekið ákvörðun um að skipta yfir í vistvæna orkugjafa. Hæstv. ráðherra sagði þegar hann svaraði fyrirspurninni að reynt yrði að hlífa mönnum við skattahækkunum eins lengi og kostur er, en það er kannski ekki nóg í ljósi þess sem ríkisstjórnin hefur að öðru leyti staðið fyrir í skattbreytingum. Kannski er eðlilegast að fara þá leið sem hv. þm. Birkir J. Jónsson nefndi, að það væri hreinlega gefin yfirlýsing um að þetta kerfi verði við lýði í þrjú eða fimm ár eins og ég hef séð gert í einstaka öðrum löndum.

Ég held að það sé mikilvægt að gefa skýrari yfirlýsingar í þá veru að við viljum og ætlum að byggja þetta hraðar upp. Í dag eru aðeins 800 bílar hér á landi sem geta nýtt sér vistvæna orkugjafa. Ég held að það sé allt of lítið. Ég held að við séum ekki að gera nóg þó að vissulega sé búið að marka ákveðna braut og gefa út ákveðnar yfirlýsingar. Það þarf líka að hvetja þá sem ætla að setja upp slíkar stöðvar að gera það víðar. Það er erfitt þegar menn virðast vera að bíða, hvort sem það er eftir egginu eða hænunni, og vita ekki hvort þeir ætla að byrja.