140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

skattur á umhverfisvænt eldsneyti.

190. mál
[17:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég held að ekki sé hægt að neita því að hvatarnir sem eru til staðar í dag gera þetta mjög hagstætt. Ef menn velja til dæmis þann kost að kaupa nýjan sparneytinn metanbíl í staðinn fyrir bensínbíl, þá um það bil helmingast orkukostnaðurinn og munar um minna. Vilji stjórnvalda stendur til að stuðla að þeirri þróun. Ég held að það sé nú eins rækilega undirstrikað og nokkuð getur verið. Ég nefni þar áætlun um orkuskipti eða mótun heildstæðrar orkustefnu. Ég nefni markmið okkar í loftslagsmálum. Á mörgum stöðum er því slegið algerlega föstu að stjórnvöld vilja stuðla að þessari þróun. Það hafa þau gert og því verður ekki á móti mælt að meira hefur gerst í þessum málum á allra síðustu missirum en nokkru sinni fyrr. (Gripið fram í.) Nei, það er að komast vaxandi skriðþungi á þetta, ekki síst í gegnum breytingar á bílum yfir í metan. Auðvitað tekur einhvern tíma að endurnýja bílaflotann, það vitum við. Þá kemur til sögunnar að hagstæðara hefur orðið að endurnýja í sparneytnum bílum. Það er ódýrara í dag, í gegnum nýtt fyrirkomulag vörugjalda, að endurnýja fjölskyldubílinn ef hann losar lítið af koltvísýringi en áður var. Það mun aftur leiða til þess að eldsneytisnotkun bílaflotans fer hratt minnkandi með því að sparneytni hans að meðaltali fer vaxandi. Það er gott en mun leiða til minni tekna í sjálfu sér í gegnum hefðbundna skattlagningu á bensín og olíur.

Það væri óheiðarlegt að gefa það til kynna að með umhverfisvænum orkugjöfum og bílum sem geta nýtt sér þá komist menn hjá því að greiða eitthvað til samgöngukerfisins um aldur og ævi. Að gefa mönnum falsvonir um að slíkt geti gengið út í hið óendanlega væri það eina sem væri virkilega óheiðarlegt í þessum efnum, því allir sjá að slíkt gerist ekki. En hinu geta menn treyst að hvati verður til staðar og það verður haft hagstætt að nýta sér vistvæna (Forseti hringir.) orkugjafa á meðan þessi ríkisstjórn starfar og það verður vonandi mjög lengi.