140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

virkjanir í Blöndu.

224. mál
[17:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir greinargóð svör sem varpa sannarlega ljósi á þetta mikilvæga mál. Við sjáum af þessu að ef vel er haldið á spöðunum er hægt að hefja þarna framkvæmdir síðari hluta árs 2013, eftir u.þ.b. tvö ár. Þá er mjög mikilvægt að nýta tímann vel á næsta ári til að vinna að þeim undirbúningi sem hæstv. iðnaðarráðherra rakti, bæði að tæknilegum undirbúningi og eins undirbúningi sem lýtur að umhverfismatinu. Ég sé það af gögnum rammaáætlunarinnar og hæstv. iðnaðarráðherra staðfesti það raunar áðan að ekki er hægt að sjá að nein umtalsverð umhverfisáhrif verði af þessu, a.m.k. ekki þannig umhverfisáhrif að það ætti að hafa neikvæð áhrif á hugmyndir manna um að fara í þessar virkjunarframkvæmdir.

Ef það tekst allt saman fylgja þessum framkvæmdum störf og umsvif í héraði, sem skiptir líka mjög miklu máli, ekki síst á þessum slóðum, fyrir utan það að með þessu er verið að styrkja enn betur allar forsendur fyrir frekari iðnaðaruppbyggingu á Norðurlandi vestra. Við vitum að heimamenn, t.d. á Blönduósi, hafa unnið mjög ötullega að hugmyndum um að koma á gagnaveri við Blönduós og hafa staðið yfir viðræður við stórt alþjóðlegt fyrirtæki. Þær viðræður hafa að mestu gengið vel. Það er eitthvert hlé á þeim viðræðum núna en það er fjarri því að menn ætli að hverfa frá þeim hugmyndum sem þar hafa verið uppi. Þó að þessi framkvæmd ráði ekki úrslitum um framgang málsins sjá allir að það mundi hafa góð áhrif á það og aðrar hugmyndir manna um orkunýtingu og iðnaðaruppbyggingu í Húnaþingi að geta farið í þessar virkjunarframkvæmdir.

Þess vegna hvet ég til þess að öllum undirbúningi sé hraðað sem mest er mögulegt af hálfu Landsvirkjunar. Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Stendur virkjunarhugmyndin og fellur með því að rammaáætlunin verði afgreidd á komandi vori eða (Forseti hringir.) er hægt, hvort sem við afgreiðum þá rammaáætlun eða ekki, að taka pólitíska (Forseti hringir.) ákvörðun um málið ef á þarf að halda?