140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

virkjanir í Blöndu.

224. mál
[17:42]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Varðandi síðustu spurninguna skiptir það máli til þess að ná fram þeirri heildarsýn sem við þurfum og mikilvægri framtíðarsýn til lengri tíma sem við þurfum í orku- og náttúruverndarmálum okkar að við ljúkum rammaáætlun á vordögum. Ég held að við séum öll sammála um það hér inni og ég trúi því að við munum öll leggjast á eitt um að reyna að ljúka henni hér þannig að menn geti gert áætlanir til lengri tíma innan orkufyrirtækjanna en líka til að við getum farið að friðlýsa þau svæði sem menn hafa náð samstöðu um í þinginu að eigi að taka til hliðar. (Gripið fram í.) Það skiptir því verulega miklu máli.

Náum við því ekki tel ég að þingið verði að ná breiðri samstöðu um hvað menn ætla að gera í millitíðinni. Ég er ekki tilbúin að leika neina biðleiki vegna þess að ég vil enn þá að trúa því að við náum að klára rammaáætlun á vordögum. Hún gefur okkur nauðsynlega framtíðarsýn.

Þegar ég fór að skoða þessi mál í tengslum við fyrirspurn hv. þingmanns fannst mér áhugaverð sú staðreynd að við eigum enn þá gríðarlega mikilvæga orkukosti í tengslum við núverandi virkjanir. Það hlýtur að vera eitthvað sem við horfum grannt til á næstunni, til næstu ára, vegna þess að það eru röskuð svæði, það eru vel þekkt svæði, og mikilvægt vatnsafl sem við þurfum inn á kerfið á komandi árum. Þarna er töluvert afl og mér reiknast svo til að það séu hvorki meira né minna en um 200 megavött sem þarna gætu hugsanlega fengist á næstu árum í gegnum þessa fimm liði; Blöndu og síðan Sigöldustöð, Hrauneyjarfossstöð, Sultartangavirkjun (Forseti hringir.) og Búrfellsvirkjun. Þar eigum við enn þá ónýtt tækifæri.