140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

sjálfstæði Háskólans á Akureyri.

150. mál
[17:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að inna hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra eftir afstöðu hennar til málefna Háskólans á Akureyri og þeirrar grundvallarspurningar hvort hún hyggist standa vörð um sjálfstæði Háskólans á Akureyri, þ.e. að höfuðstöðvar og stjórn skólans verði á Akureyri þrátt fyrir að aukið samstarf og samvinna muni eiga sér stað og hugsanlega einhverjar sameiningar í framtíðinni.

Við þekkjum það að Háskólinn á Akureyri er ein mikilvægasta stofnun og ég vil bara segja allra mikilvægasta stofnun landsbyggðarinnar. Á undangengnum árum hafa um 1.500 nemendur innritað sig ár hvert í háskólann og tölur hafa sýnt að hlutfallslega langflestir nemenda, miðað við aðra háskóla á suðvesturhorni landsins, sem stunda nám við skólann skila sér til starfa vítt og breitt um landið. Enda er það engin tilviljun í ljósi þess að fjarkennslunet Háskólans á Akureyri er gríðarlega umfangsmikið. Það má því með réttu segja að Háskólinn á Akureyri sé vagga menntunar á landsbyggðinni og þess vegna er mikilvægt að við höfum á hreinu hver stefna stjórnvalda er til framtíðar litið gagnvart honum.

Háskólinn hefur sinnt því hlutverki að þjónusta fólk vítt og breitt um landið sem hefur viljað afla sér aukinnar menntunar en það er eitt grunnstef 21. aldarinnar að fólk hafi aðgengi að menntun við hæfi án þess að þurfa að sækja hana um langan veg. Við vitum að á mörgum stöðum víða um land sinnir háskólinn því hlutverki að fólk geti sótt sér aukna menntun sem það hefði annars ekki haft tækifæri til.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra um málefni Háskólans á Akureyri. Við tókum þessa umræðu í fyrra og þá var hæstv. ráðherra eðlilega mjög jákvæð gagnvart þeirri glæsilegu starfsemi sem Háskólinn á Akureyri hefur haldið uppi á undangengnum árum. Ég vil líka minna á að miðað við sögu skólans og fjárhagsleg mál hans hefur háskólinn á seinni árum náð tökum á fjármálum sínum sem eru umfangsmikil eins og nemendafjöldinn bendir til.

Ég vil því inna hæstv. ráðherra, sem er sem betur fer komin aftur til starfa á hv. Alþingi og í Stjórnarráðinu, eftir því hvaða stefnu hún hefur gagnvart málefnum háskólanna, sérstaklega með tilliti til sjálfstæðis Háskólans á Akureyri.