140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

sjálfstæði Háskólans á Akureyri.

150. mál
[17:54]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja að stofnun Háskólans á Akureyri fyrir bráðum 25 árum sé einhver best heppnaða, ef ekki best heppnaða byggðaaðgerð Íslandssögunnar. Ég veit að ég tek stórt upp í mig en ég hef fylgst mjög gjörla með starfsemi skólans nánast frá byrjun og hann er glæsilegur vitnisburður um það hvernig sækja má fram á sviði mennta úti á landi. Ein lykilforsenda fyrir því að sjálfstæði Háskólans á Akureyri beri að varðveita er að 70% af nemendum skólans setjast að úti á landi með sína góðu menntun en það hefur einmitt staðið byggðum lengst frá Reykjavík fyrir þrifum að þar hefur menntunarstig ekki verið nógu hátt.

Af þeirri ástæðu einni er mikilvægt að leggja áherslu á sjálfstæði Háskólans á Akureyri. Hann skilar sínu í tölum, hann eykur menntunarstig þjóðarinnar (Forseti hringir.) á þeim stöðum sem þurfa á því að halda.