140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

verknámshús við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

231. mál
[17:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Á síðastliðnu ári hrinti ríkisstjórnin af stað verkefni sem fékk nafnið 20/20 – Sóknaráætlun fyrir Ísland, sem er verkáætlun um hvernig best verði lagður grunnur að nýrri sókn í íslensku atvinnulífi og samfélagi. Landshlutasamtökum Sambands íslenskra sveitarfélaga var falið að hafa umsjón með svæðisbundnu samráði um áætlunina. Um sjö svæði er að ræða og er Suðurland eitt þeirra. Stjórn SASS, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, samþykkti að taka þátt á þeirri forsendu að þátttaka ráðuneyta og stofnana ríkisins væri tryggð og verkefnið yrði unnið í nánu samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, aðrar sameiginlegar stofnanir sveitarfélaganna, ríkisstofnanir á svæðinu og fulltrúa vinnumarkaðarins. Stjórnvöld tilkynntu svo í sumar að sóknarsvæðin sjö gætu sent inn fimm til sjö tillögur til fjárfestingaráætlunar sem eftir atvikum fengi fjárframlög á fjárlögum. Skilaði framkvæmdaráð verkefnisins á Suðurlandi inn átta tillögum sem samþykki höfðu hlotið hjá stjórn SASS. Efst á þeim lista var viðbygging við verknámshús Fjölbrautaskóla Suðurlands. Jafnframt samþykkti ársþing SASS í október að skora á stjórnvöld að láta hefja nú þegar hönnun viðbyggingar við verknámshúsið og benti á að sveitarfélög hefðu þegar lagt fram fé til verkefnisins, en sveitarfélögin eiga nú um 140 millj. kr. handbærar í verkefnið. Ársþingið lagði mikla áherslu á að ríkisstjórnin tryggði fjármagn til verkefnisins á næstu fjárlögum svo verkið gæti hafist sem fyrst og hægt væri að stefna að verklokum haustið 2014.

Þessi tillaga SASS og sveitarfélaganna á Suðurlandi var þannig í fullkomnu samræmi við sóknaráætlun stjórnvalda fyrir Ísland, hina svonefndu 20/20 áætlun, þar sem lögð var áhersla á að fjölga þurfi iðn- og tæknimenntuðu fólki á Íslandi og gera þurfi verknám að raunverulegum valkosti í skólakerfinu og auka virðingu fyrir verknámi og verkfærni. Því skýtur skökku við að ekki skuli vera gert ráð fyrir viðbyggingu við verknámshús Fjölbrautaskóla Suðurlands á fjárlögum næsta árs. Það er í hróplegu ósamræmi við þær áherslur sem lagðar eru í 20/20 áætluninni, stefnu stjórnvalda og áherslu Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi. Það er jafnframt í hróplegu ósamræmi við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem segir að lögð sé áhersla á að ungt fólk á landsbyggðinni geti tekið sem mest af grunnnámi sem næst sinni heimabyggð og geti valið um bók-, starfs- og listnámsbrautir og jafnframt að efla þurfi verk- og starfsnámsbrautir. Þá er ekki síður undarlegt þar sem það liggur fyrir að þau munu leggja fram um 140 millj. kr. í verkefnið.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Verður ráðist í byggingu verknámshúss við Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 2012? Hver er áætlaður verktími, fyrirkomulag og kostnaður við framkvæmdina?

Mun ráðuneytið leggja til að gerð verði breyting á fjárlögum í samræmi við þær (Forseti hringir.) tillögur sem komu fram í 20/20 áætluninni?