140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

verknámshús við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

231. mál
[18:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn og þær upplýsingar sem hér hafa komið fram. Þetta mál hefur verið nokkuð óljóst. Hv. 1. þm. Suðurkjördæmis, Björgvin G. Sigurðsson, sagði að gert væri ráð fyrir þessu og yrði gert við 2. umr. um fjárlög. Ég sendi fyrirspurn til menntamálaráðuneytisins fyrr í haust þar sem ég sá ekki nein merki þess í fjárlagafrumvarpinu og fékk það svar að ekki væri gert ráð fyrir fjárveitingu eða fjárframlagi í frumvarpinu 2012 og í skoðun væri að veita framlag til viðbyggingarinnar á komandi árum. Þess vegna fannst mér svar ráðherrans hér mjög gott og upplýsandi og eins upplýsingar sem komu frá hv. þingmanni og fjárlaganefndarmanni um að stefnt sé að því við 2. umr. fjárlaga, en það er sem sagt óljóst enn.

Mig langar að spyrja ráðherra hvort þetta þýði ekki ef þessi leið verður farin — hvort sem það verður lág upphæð sem veitt verður fyrst á fjárlögum 2012 og væntanlega reynt að (Forseti hringir.) nýta þá fjármuni sem sveitarfélögin hafa — að þar með liggi fyrir skuldbindandi ákvörðun ríkisvaldsins um að klára verkið á næstu tveimur árum þar á eftir.