140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

ullarvinnsla og samvinnufélög.

49. mál
[18:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í anda framsóknarmanna um víða veröld er ég mjög áhugasöm um sauðkindina. Íslenska sauðkindin kom með landnámsmönnum á sínum tíma. Oft hefur henni verið þakkað fyrir það að þjóðin skyldi lifa af í gegnum aldirnar við erfiðar náttúrulegar aðstæður. Við erum mjög stolt af sauðkindinni og viljum gjarnan trúa því að íslenska lambakjötið sé það besta í heimi. Ég vil þó ræða hér aðra afurð íslensku sauðkindarinnar, sem hefur ekki fengið næga athygli að mínu mati á undanförnum árum, sem er íslenska ullin.

Íslenska sauðkindin þykir vera mjög harðgerð og nægjusöm og frekar frumstæð að byggingu. Ullin er gróf og frumstæð rétt eins og féð. Hún skiptist í tvennt; þel, sem er mjúkt og tiltölulega stutt, og tog, sem er lengra og grófara og vex utan á þelinu. Heldur togið þannig frá m.a. bleytu og snjó. Fjöldi náttúrulegra ullarlita tegundarinnar þykir einnig mjög áhugaverður. Það er þekkt að ull aðlagi sig að veðurfari og aðstæðum hverju sinni. Fé af íslenskum stofni sem ræktað hefur verið í Norður-Ameríku er þannig með mýkri ull en fé á Íslandi. Að sama skapi hafa menn uppgötvað að ull af kindum sem eru inni yfir veturinn hentar illa til handverks sökum þess að hún þófnar og verður full af mori. Þannig eru flestir farnir að taka upp á því að haustrýja til að tryggja að afurðin sé sem best.

Tilraunir til að kynbæta sauðkindina hér hafa gengið misjafnlega, en góð sauðkind ætti að gefa betri og meiri ull. Gæði fóðurs getur skipt máli og meðhöndlun bænda á ullinni. Því miður fer ekki lengur fram samhæft ullarmat heldur meta bændur sjálfir ull sína.

Ullarvinnsla og skinnaiðnaður hefur verið stundaður hér á landi langt aftur í aldir. Ullarvörur eru meðal vinsælustu minjagripa erlendra ferðamanna, enda telja þeir og ég held að við getum verið sammála þeim að vörurnar endurspegli sérstöðu Íslands, þess sem er öðruvísi en annars staðar. Ekki endilega betra, heldur öðruvísi.

Þrátt fyrir það hefur textílþróun verið lítil hér á landi. Nokkrir hafa þó reynt að gera sitt besta til að þróa áfram vinnslu og vöruþróun á ull hér á landi. Vil ég þá nefna Ístex, sem raunar fer með mest af ullarframleiðslunni, en sérstaklega líka frumkvöðlana í Þingborg sem stofnuðu samvinnufélag um ullarvinnsluna árið 1991 og ullarvinnslu frú Láru á Seyðisfirði.

Því vil ég spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hvernig hann telji að hægt sé að styðja við vöruþróun og vinnslu á íslenskri ull. Kemur til greina að taka aftur upp samræmt ullarmat? Væri hægt að styðja við rannsóknir og kynbætur á íslensku sauðkindinni og ullinni? Kemur til greina að hefja samstarf við iðnaðarráðuneytið um þróun og vinnslu á ull? Telur hæstv. ráðherra ástæðu til að hvetja bændur sérstaklega til að stofna og reka (Forseti hringir.) samvinnufélög um vinnslu og vöruþróun á íslenskri ull til að safna, meta og markaðssetja ullina, eða jafnvel að styðja almennt við stofnun samvinnufélaga bænda?