140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

ullarvinnsla og samvinnufélög.

49. mál
[18:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Það er sérstaklega ánægjulegt að fá svona hlýjar fyrirspurnir, því að íslenska ullin hefur jú haldið hita á íslensku þjóðinni í gegnum aldirnar og gerir enn. Þess vegna þakka ég hv. þingmanni fyrir að vekja hér athygli á íslensku ullinni.

Til viðbótar við það sem hv. þingmaður nefndi um gæði og gerð íslenskrar ullar vil ég vinda mér strax í þær fyrirspurnir sem hv. þingmaður leggur fram.

Í fyrsta lagi, hvernig hægt sé að styðja við vöruþróun og vinnslu á íslenskri ull. Ég vil fyrst rekja það að á árinu 2011 greiða stjórnvöld bændum styrk að fjárhæð 390 millj. kr. til ullarnýtingar, en það er gert á grundvelli gildandi samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Þessi fjárhæð er m.a. greidd til að hvetja bændur til umhirðu og söfnunar ullar, en fyrirtækið Ístex hf. greiðir bændum að auki heimsmarkaðsverð fyrir innlagða ull. Ístex hf. er ullarvinnslufyrirtæki í Mosfellsbæ sem hefur verið starfrækt síðan 1991. Það fyrirtæki tók við af Álafossi á sínum tíma. Ístex kaupir ullina beint af bændum og vinnur úr henni band, en ullin er þvegin í þvottastöð Ístex á Blönduósi og spunnin í band í spunaverksmiðjunni í Mosfellsbæ. Vörur Ístex eru síðan seldar um allan heim. Á síðustu árum hefur eftirspurn eftir lopa aukist mjög umtalsvert, en auk þess framleiðir fyrirtækið ullarteppi, vefnaðarband og gólfteppaband. Teppin eru að vísu enn sem komið er unnin fyrir Ístex í Litháen.

Varðandi aðila sem hafa verið að hefja framleiðslu á ullarvörum í minni stíl þá er, eins og hv. þingmaður kom inn á, lítils háttar af ull unnið á ullarvinnslusetrum á landsbyggðinni. Þannig fóru haustið 2010 niðurgreiðslur samkvæmt þeim reglum sem ég gat um áðan fyrir um 180 kg til ullarsafnsins á Hvanneyri. Sambærileg tala í Þingborg í Flóa var á sama tíma 287 kg, sem síðan skilaði sér í um 200 þús. kr. niðurgreiðslu eða stuðningi frá hinu opinbera samkvæmt þeim reglum sem ég greindi frá. Það er því ljóst að á þessum tveimur stöðum fer fram mikilvæg vöruþróun og úrvinnsla á ullinni. Reyndar þekkjum við til fleiri staða víða út um land þar sem fer fram vinnsla á ull með einum eða öðrum hætti, hvort heldur það er í flóka, prjóni eða jafnvel vefnaði. Þetta er allt saman mjög vaxandi og hluti af þeim margbreytileika sérstaklega sem tengist ferðaþjónustu sem hv. þingmaður minntist á.

Bara til upplýsinga skal ég líka greina frá því að innvegin ull árið 2008 var 707 þús. kg, árið 2009 786 þús. kg. og árið 2010 761.770 kg, þannig að maður átti sig hvað þarna hefur verið á ferðinni. En þarna er, eins og ég greindi frá, um beinan stuðning að ræða og þátttöku og hvatningu varðandi framleiðslu, hirðu og vinnslu á ull.

Í öðru lagi spurði hv. þingmaður: Hefur ráðherra hugleitt að hvetja bændur til að stofna og reka samvinnufélög um vinnslu og vöruþróun á íslenskri ull?

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er fyllilega ástæða til að hvetja sem flesta, ekki aðeins bændur, til að stofna og reka samvinnufélög um tiltekna þætti og, eins og hv. þingmaður nefndi, um vinnslu og vöruþróun á íslenskri ull, en það hefur tekið á sig önnur form en samvinnufélögin unnu eftir fyrir allmörgum árum síðan. Þó vil ég minna á að Ístex er 50% í eigu um 1.800 bænda og 46% í eigu starfsmanna, auk annarra aðila. Flest árin frá stofnun fyrirtækisins hefur rekstur þess verið erfiður en síðustu árin hefur reksturinn verið réttu megin við strikið. Það er því ljóst að ullarvinnsla í heimahéraði er mikilvæg stoð í atvinnulífi, ferðamennsku og menningu sauðfjárbúskapar í landinu. Því er ástæða til að fagna áhuga þingsins og þingmannsins í þessu máli og ég styð alveg heils hugar allar þær hugmyndir sem mega leiða til hvatningar, framfara og (Forseti hringir.) átaks í þessum efnum.