140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

ullarvinnsla og samvinnufélög.

49. mál
[18:23]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni í þessum efnum. Ég veit að nú þegar er heilmikið samstarf á milli stofnana iðnaðarráðuneytisins og aðila á þess vegum við þá sem eru í vinnslu á ull og einnig er þetta nátengt ferðaþjónustu, þar er víðtækt samstarf. Hvatinn að þessu starfi þarf líka að koma frá þeim einstaklingum og hópum sem vilja takast á við þetta. Þá er það sjálfsagt að hið opinbera veiti hvatningu og stuðning en skapi ekki síst þá umgjörð til að þetta fái blómstrað. Þarna eigum við marga sóknarmöguleika, gríðarleg sóknartækifæri.

Ég vil líka minnast á gærurnar í þessu sambandi. Gærur af sauðfé voru orðnar verðlausar fyrir nokkrum árum, sérstaklega þegar gengið var skráð eins og raunin var. Menn voru í vandræðum með að losna við þær til að þurfa ekki að farga þeim. Þær voru þá fluttar út óunnar á lágu verði.

Nú er aftur á móti vaxandi eftirspurn innan lands eftir gærum. Loðskinn á Sauðárkróki hefur náð miklum árangri í að endurhanna tæknina og þróunina í nýtingu á gærum og einnig í vöruþróun og markaðssetningu. Þar eru mjög lofsverðir hlutir að gerast, bæði hvað varðar ull og gærur af íslensku sauðkindinni. Þarna eru (Forseti hringir.) miklir möguleikar, gott starf í gangi, en enn meiri möguleikar (Forseti hringir.) fram undan.