140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

Bjargráðasjóður.

211. mál
[18:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra varðandi það úrræðaleysi sem við horfumst í augu við þegar stofnanir eins og Bjargráðasjóður og Viðlagatrygging geta ekki leyst þau mál sem komið hafa upp á síðustu tveimur árum á gossvæðunum undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og í Skaftárhreppi. Í kjördæmavikunni þegar við þingmenn fórum og hittum sveitarstjórnarmenn kom berlega í ljós — við vissum reyndar um flestöll þau dæmi fyrr — að þó nokkur vandamál væru enn óleyst. Sum heyra ekki undir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þörf á hjúkrunarrýmum og ýmsum öðrum hlutum, að tryggja opinbera þjónustu á þessum viðkvæmu svæðum, sem þau svo sannarlega eru — og kannski er þetta svæði frá Markarfljóti og austur á Höfn, og þar með talið dreifbýlið í Austur-Skaftafellssýslu, þær byggðir sem hafa orðið fyrir mestri fólksfækkun og sveitarfélögin þar af leiðandi liðið fyrir það. Þau eru með mjög viðkvæman strúktúr í uppbyggingu og þoldu illa að fá þessar náttúruhamfarir yfir sig. Það var þakkarvert að allir tóku sig á, og ríkisstjórnin þar með, í að lýsa því yfir að fólk mundi koma eins tjónlaust út úr þessu og hægt væri.

Mig langar því að heyra hver staðan er á þeim málum, ekki einstökum málum heldur í þeirri vinnu og hvað stendur út af að mati ráðherrans, til dæmis er varðar Bjargráðasjóð. Nefna má hluti eins og bæði fyrirhleðslumál, varnargarða, uppmokstur upp úr skurðum sem eru sífullir af ösku og sandi. Vatnsskortur hefur líka verið á einstaka bæjum þrátt fyrir að menn hafi leitað eftir vatni og lent í umtalsverðu tjóni og það virðist engin taka á þessu, ekki Viðlagatrygging, ekki Bjargráðasjóður. Þá er það spurning hvort menn séu að vinna að einhverjum breytingum á Bjargráðasjóði annars vegar og hins vegar hvaða vinna eigi sér stað til að leysa þessi mál. Mér er kunnugt um að þrír ráðuneytisstjórar hafi unnið að því en getur ráðherra upplýst okkur hvort þessi mál séu í farvegi lausna og hvort fólk megi búast við að fá úrlausn sinna mála.