140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

Bjargráðasjóður.

211. mál
[18:29]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að taka þetta mál til umræðu í þinginu, þ.e. hvernig þeim verkefnum reiðir af sem Bjargráðasjóður ber ábyrgð á gagnvart afleiðingum gosanna undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og í Skaftárhreppi.

Af hálfu sjóðsins hefur verið lögð áhersla á að koma með lausnir meðan nokkur kostur er að leysa úr þeim verkefnum sem hafa til hans komið.

Ég vil í upphafi geta þess, og tel mikilvægt að það komi fram, að meðal annars fyrir eindregnar kröfur Sambands íslenskra sveitarfélaga og reyndar líka ýmissa í stjórnsýslunni á sínum tíma var lögum um Bjargráðasjóð breytt árið 2009. Reyndar hafði verið gerð önnur atrenna áður að því að leggja hann niður, af þáverandi stjórnvöldum, en árið 2009 voru samþykkt lög sem heimiluðu sveitarfélögunum að ganga út úr sjóðnum með sinn eignarhluta. Annars var þetta bara Bjargráðasjóður sem var rekinn annars vegar af samtökum bænda og hins vegar af sveitarfélögunum eftir ákveðnum reglum.

Það að sveitarfélögin skyldu ganga út veikti möguleika sjóðsins til að takast á við ýmis þau verkefni og áföll sem dundu yfir með gosunum í Eyjafjallajökli 2010 og í Grímsvötnum 2011. Ríkisstjórnin ákvað hins vegar strax að standa þannig við bakið á Bjargráðasjóði að han gæti staðið undir hlutverki sínu við tjónabætur vegna eldgosanna eins og hlutverk sjóðsins var skilgreint.

Strax eftir að gosið hófst í Eyjafjallajökli í apríl 2010 var skipuð nefnd til að rannsaka tjónið og gera tillögur til stjórnar sjóðsins um aðstoð vegna þess. Það er í samræmi við 11. gr. laga um Bjargráðasjóð, nr. 49/2009. Á grundvelli tillagna nefndarinnar staðfesti ég síðan reglur um bætur úr Bjargráðasjóði þar sem segir í 1. gr.:

„Bjargráðasjóður bætir tjón af völdum vatnsflóða og/eða gjósku vegna eldgoss í Eyjafjallajökli á svæðinu frá Markarfljóti til Kúðafljóts.“

Í 2. gr. var síðan skilgreint hvers konar tjón sjóðurinn skyldi bæta, hann bætir fjárhagsleg tjón sem hlýst vegna: hreinsunar á sandburði á ræktarlandi vegna vatnsflóða, hreinsunar á túnvegum vegna vatnsflóða og/eða öskufalls, hreinsunar skurða vegna vatnsflóða og/eða öskufalls, eyðileggingar eða skemmdar á túngörðum vegna vatnsflóða, eyðileggingar á ræktarlandi vegna vatnsflóða og/eða öskufalls, endurræktunar túna vegna vatnsflóða og/eða öskufalls, uppskerurýrnunar á ræktarlandi vegna vatnsflóða og/eða öskufalls, kostnaðar sem hlýst af búfjárflutningum af hamfarasvæðum og framfærslu þess á nýjum stað og tjóns á búfé og afurðum búfjár.

Að öðru leyti kváðu reglurnar nánar á um umsóknir, úttektir og mat á tjóni, eigin áhættu og greiðslu bóta. Gildistími reglnanna var fyrst ákveðinn eitt ár en var síðan framlengdur til ársloka 2011 þar sem óraunhæft var að meta allt tjón og ljúka endurbótum fyrr en á þessu ári.

Eftir fyrstu úttekt á umfangi tjónsins vorið 2010 var fjárþörf sjóðsins metin á um 190 millj. kr. og var sú upphæð veitt aukalega það ár. Þegar eftir eldgosið í Grímsvötnum í maí 2011 var fljótlega ákveðið að Bjargráðasjóður skyldi starfa með sama hætti og gagnvart því svæði sem þá varð fyrir tjóni og voru reglurnar aðlagaðar samkvæmt því. Áætluð var viðbótarfjárþörf upp á 80 millj. kr. og þar af 30 millj. kr. vegna eftirstöðvar frá fyrra gosi en 50 millj. kr. vegna Grímsvatnagossins. Gert er ráð fyrir þessari fjárveitingu í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2011 sem nú liggur fyrir þinginu. Það er mat sjóðstjórnar að fjárþörf vegna eldgossins verði að fullu mætt með þessum fjárveitingum. Samkvæmt upplýsingum frá formanni sjóðsins eru engin umtalsverð kvörtunarmál óleyst varðandi aðkomu Bjargráðasjóðs að tjónabótum vegna eldgosanna.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson spyr mig um úrræði til lausnar á þeim verkefnum sem Bjargráðasjóður getur ekki leyst. Jafnframt spyr hann efnahagsráðherra og viðskiptaráðherra á sama hátt varðandi Viðlagatryggingu og forsætisráðherra um stöðuna í heild.

Ég kem svo nánar að tilteknum þáttum sem hv. þingmaður vék að í seinna svari mínu.