140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

Bjargráðasjóður.

211. mál
[18:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að tjón, bæði beint og óbeint af völdum náttúruhamfara, verður seint bætt að fullu og aldrei í sjálfu sér bætt að fullu þó að reynt sé að skilgreina ákveðna þætti þess sem hægt er að bæta og þá er það bætt eftir gegnsæjum reglum. Sú hætta er alltaf fyrir hendi þegar svona mál koma upp að ákveðið tiltekið tjón getur lent á milli aðila sem bæta tjón. Við höfum þá tvo aðila sem hv. þingmaður nefndi, Bjargráðasjóð og Viðlagatryggingu. Einmitt þess vegna var af hálfu stjórnvalda settur á fót starfshópur ráðuneytisstjóra sem hefur í nánu samstarfi við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgst með þróun mála og tekið við ábendingum, kvörtunum og umsóknum um ýmsa fyrirgreiðslu frá fjölmörgum aðilum og gert tillögu til ríkisstjórnar um afgreiðslu slíkra mála.

Hv. þingmaður spyr um, ég held að það sé rétt hjá mér, þá verður hæstv. umhverfisráðherra líka spurður um það, þ.e. aðkomu stofnana umhverfisráðuneytisins sem hafa átt aðild að þessu samráði, að samstarf ráðuneytanna sem koma þarna beint að hefur þá einmitt snúið að þessu.

Það er alveg rétt að verið er að endurskoða þessi lög í heild sinni og hvernig brugðist er við bótum vegna náttúruhamfara. Það verk er að ég best veit unnið á ábyrgð forsætisráðherra þar sem fara verður í gegnum gildandi lög um þessa þætti og taka á þeim heildstætt. Það er náttúrlega mjög mikilvægt gagnvart því fólki sem verður fyrir tjóni að það fái sem heildstæðasta úrlausn (Forseti hringir.) og þurfi ekki sjálft að standa í því að fara á milli aðila til að kanna rétt sinn.

Ég tel samt að af hálfu a.m.k. ráðuneytis míns (Forseti hringir.) hafi verið reynt að standa sem best að þessum málum eins og nokkur kostur hefur verið en þó má vafalaust alltaf finna hnökra en við reynum að leysa úr þeim.