140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

staðfesting á aðalskipulagi Skaftárhrepps.

139. mál
[18:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég vona að hæstv. ráðherra virði það við mig að ég komi hér og endurómi tortryggni sveitarstjórnarmanna í litlum sveitarfélögum í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, ekki síst er varðar aðalskipulag og staðfestingu þess í ljósi reynslunnar — og er þá nægilegt að telja upp nokkur sveitarfélög í Suðurkjördæmi. Öll hafa þau samskipti og sú tortryggni orðið í kringum nýtingu náttúrunnar til virkjana, í kringum virkjunarkosti. Þess vegna er það kannski ekkert sérstaklega mikið undrunarefni að í þessu aðalskipulagi eru fjögur virkjunarsvæði sem verið að leggja til að merkja sem iðnaðarsvæði og þessar háspennulínur tengjast að hluta einu þeirra.

En á sama tíma og hæstv. ráðherra svaraði því ekki hvernig hægt væri að ganga fram og friðlýsa á miðju sumri áður en þessar upplýsingar um formgalla vegna háspennulínunnar lágu fyrir var hægt að taka hluta af stefnumörkun sveitarfélagsins í nýtingu lands og friðlýsa það eins og þar var gert, á föstudegi fyrir verslunarmannahelgi, og gera ekkert meira úr því — þetta er svona hluti af því sem sveitarfélagið getur virkilega verið stolt af, það mun stæra sig af því í framtíðinni að þetta tilheyri þeirra sveitarfélagi.

Ég vil kannski fá aðeins nánari svör frá ráðherranum gagnvart því og þakka ráðherranum að öðru leyti fyrir að fara ágætlega yfir tímasetningarnar sem ég veit að eru alveg sannar. Þetta hefur farið fram og til baka í þessu flókna kerfi með þessar háspennulínur. En það breytir því ekki að hægt var að taka hluta af stefnumörkuninni út fyrir sviga (Forseti hringir.) en annað virðist bíða og bíður enn. Ég held að það væri æskilegt að mjög fljótlega færi að draga til tíðinda í því.